„Megi stórhugur ríkja hér. Megi ykkur auðnast að sýna sanngirni, háttvísi og lipurð í mannlegum samskiptum, virða ólíkar skoðanir og sjónarmið en standa líka fast á eigin sannfæringu og halda fram eigin málstað, í þjóðarþágu.“
Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í ávarpi sínu við setningu Alþingis í dag, 150. löggjafarþings. Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða í þinginu annað kvöld og á fimmtudag koma fjárlög til umræðu.
„Óvissa er í raun annað orð yfir framtíð. Satt er það að varkárni er góðra
gjalda verð. Við megum varast þá andvaralausu og þá kærulausu, það sanna dæmin. En við megum líka varast þá kvíðafullu, þá hræddu og þá reiðu. Þær stundir geta einmitt komið að við höfum ekkert að óttast nema þá óttaslegnu,“ bætti forsetinn við.
Hann vísaði í orð Ingibjargar Haraldsdóttur sem fyrr á þessari öld hefði minnt á vægi vonar í hörðum heimi og bent á að síðan hún myndi eftir sér hefði heimurinn verið að farast.
„Eru þetta ekki orð að sönnu? Eigum við ekki að vera bjartsýn þrátt fyrir
allt, vera hugrökk? Og hugrekki, hvað er það í þessum sal, hvað er það á
vettvangi þjóðmálanna? Það er í það minnsta ekki hugrekki ef fólk bugtar sig og beygir fyrir þeim sem hafa hæst, þeim sem láta formælingar fjúka í stað raka og skynsamra skoðanaskipta. Sómakært fólk má líka íhuga í hvaða félagskap það getur endað, hvernig hófstilltur og röggsamur málflutningur getur umhverfst í öfgar og útúrsnúning í meðförum annarra.
Og áður en fólk fer að fyrtast við og taka öll þessi orð til sín bið ég ykkur,
kæru landsmenn og þingmenn, að minnast þeirrar speki sem finna má í þekktu lagi Carly Simon, þeirrar ágætu söngkonu: „Hættu þessum hégóma, að halda að sungið sé um þig,“ bætti hann við.
Forsetinn sagði að lýðræðishefð yrði best varin með rökræðu og hlustun og endurmati, ekki með yfirgangi, þótta og skoðanahroka.
„En vandinn er bara þessi: Við búum ekki í veröld hinna einföldu lausna, hinna algildu sanninda. Við getum dáðst að Bjarti í Sumarhúsum, þrautseigju hans og frelsisleit. Um leið má samt setja út á þrákelkni hans og eigingirni, skapbresti sem leiddu hörmungar yfir aðra. Þetta er úr skáldskap en raunheimar geyma svipaðan lærdóm um margar hliðar einnar sögu. Við getum þannig dáðst að dugnaði okkar manna í þorskastríðunum en viðurkennt um leið að meira þurfti til að landa sigri, þróun hafréttar sem var okkur í vil og ekki skemmdi fyrir að skipta máli í átökum austurs og vesturs.
Nú virðast þeir tímar reyndar runnir upp að land okkar sé að margra mati í
þjóðbraut á ný. Þá ríður á að greina milli varkárni og tortryggni, standa fast á sínu en óttast ekki umheiminn,“ bætti hann við.