Ólíklegt er að tíðindin af áhuga Bandaríkjaforseta, Donald Trump, á að kaupa Grænland, hafi komið stjórnvöldum þarlendis í opna skjöldu. Bandarísk stjórnvöld hafa lengi haft Grænland á teikniborðinu. Nú, ólíkt árunum eftir að Kalda stríðinu lauk, hefur hlýnun loftslagsins ýtt Grænlandi, Íslandi og fleiri löndum við Norðurskautið, á framlínuna. Nýjar verslunar- og siglingaleiðir eru að opnast, og verðmæti á Grænlandi eru orðin aðgengilegri fyrir vinnslu. Um þetta er fjallað í grein í Foreign Policy á dögunum. Viljinn gerði lauslega endursögn sem fer hér á eftir.
Trump hafði rétt fyrir sér varðandi mikilvægi Grænlands fyrir Bandaríkin. En brussugangurinn við að leggja hin annars leikjafræðilega snjöllu kaup til, varð síður en svo til fallinn að opna á þann möguleika, heldur móðgaði Trump nána vinaþjóð og bandamenn Bandaríkjamanna, Dani.
Kína: Músin sem læðist
Kínversk stjórnvöld hafa ekki setið auðum höndum. Óbeislaður aðgangur að nýrri, styttri og hagkvæmari siglingaleið er ómetanlegur fyrir kínverska hagkerfið. Í Peking hafa menn þegar reynt að bæta sér upp skort á landi að Norðurskautinu, með áhuga á jörðum á Íslandi eða Grænlandi – kaupum sem hafa hingað til ekki gengið eftir. Ráðamenn hafa þegar reynt að kynna Kína til sögunnar sem „því sem næst Norðurskautsland“ og tókst þeim að ávinna Kína stöðu áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu. Þetta er samhengið sem kaupáhugi Trump sprettur úr.
Á meðan Bandaríkin eru, vegna Alaska, sannarlega Norðurskautsland, þá eiga þau landfræðilega enga hlutdeild í evrópska hluta Norðurskautsins. Það eiga á hinn bóginn Grænland, Danmörk, Ísland og Noregur. Bandaríkin eru þó með herstöð í Thule á norðurhluta Grænlands, skammt frá Norðurpólnum. Byggð árið 1943, er herstöðin m.a. búin geimferðaeftirliti og eldflaugaviðvörunarkerfi. Í ljósi mikilla hernaðarumsvifa Rússlands (og jafnvel Kína) á svæðinu, kæmi það ekki á óvart þó Bandaríkin og Danmörk kæmu sér saman um aukna viðveru Bandaríkjahers þar, en til þess þyrftu talsverðar viðræður að eiga sér stað. Trump hefur líklega hugsað að einfaldast væri að kaupa bara Grænland.
Þjóðríki ekki til sölu á nýrri öld
Það eru ýmsir augljósir annmarkar á þeirri hugmynd, t.a.m. sá, að þjóðríki eru ekki lengur til sölu á þessari öld. Á meðan Danmörk sér um varnar- og utanríkismál Grænlands, þá lýtur það sjálfstjórn að öðru leyti. Jafnvel þó svo að kaupin væru gerleg, gæti sá böggull fylgt skammrifi að Grænlendingar hafi engan áhuga á að verða aftur nýlenduþjóð, og Trump fengi ekki að ráðskast með þá að vild.
Vaxandi leikjafræðilegt mikilvægi Thule, samfara opnun siglingaleiða á Norðurskautinu, leiðir til þess að skynsamlegt sé að efla hernaðarleg umsvif og eftirlit. Slíkt krefðist náinnar samvinnu við Dani og Grænlendinga. En þeir gætu nú hafa nú glatað áhuganum. Trump tókst að bregða Grænlendingum og lítilsvirða Dani. Tryggðatröllunum sem staðið hafa þétt við hlið Bandaríkjamanna í Persaflóastríðinu, Balkanstríðinu, Líbýu, Afghanistan og átökunum við Íslamska ríkið, og því til staðfestingar hvíla ófáir Danir undir grænni torfu.