Þarf að hætta að tala sífellt inn í hóp sem aldrei mun kjósa flokkinn

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

„Við þessu er ekkert einfalt svar,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi og ein af vonarstjörnum Sjálfstæðisflokksins, þegar Viljinn biður hann um að leggja mat á þær deilur sem tröllríða nú flokknum með skeytasendingum núverandi og fyrrverandi forystumanna fyrir opnum tjöldum.

„Málið er hinsvegar að Sjálfstæðisflokkurinn í dag er á algerum krossgötum.  Hann er settur saman úr annarsvegar íhaldsmönnum og hinsvegar frjálslyndum.  Í flestum löndum eru þetta tveir flokkar en hér hjá okkur er þetta sami flokkurinn.  Í dag eru frjálslyndir búnir að finna sér tærari rödd innan annarsvegar Viðreisnar og hinsvegar Pírata.  Þar er talað skýrar um frelsi, Laissez-faire og önnur slík prinsippmál.  Á sama hátt hefur Miðflokkurinn tekið sér stöðu sem talar skýrar inn í hóp Íhaldsmanna en við Sjálfstæðismenn höfum verið að gera.  Þannig er búið að klippa bæði haus og hala af Sjálfstæðisflokknum,“ segir Elliði.

Elliði, sem var áður bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, er af mörgum talinn framtíðarforystumaður í Sjálfstæðisflokknum. Hann er spurður hvað þurfi að gera, til að lægja öldur og reyna að endurheimta fyrra fylgi.

„Ætli flokkurinn að ná sér á strik þá verður hann að bera gæfu til þess að fara að tala skýrar.  Hann þarf að láta af því að tala sífellt inn í þann hóp sem aldrei mun kjósa hann og einbeita sér að því að standa fyrir hugsjónir sem aldrei verður vikið frá.  

Við Sjálfstæðismenn stöndum á mörkinni og köllum eftir frekari lækkun skatta, bættu umhverfi fyrirtækja, minna ríkisbákni, meira frelsi og einkarekstri þar sem það á við.  Við viljum að loftlagsmál séu á dagskrá og að umhverfi fyrirtækja séu þannig að innbyggðir séu hagrænir hvatar fyrir fyrirtæki þegar kemur að lækkun kolefnisspors.  

Eftirlitskerfið eins og í ráðstjórnarríkjunum

Við köllum eftir því að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja verði bætt en haldi ekki áfram að versna.  Íslensk fyrirtæki þurfa ekki eingöngu að bera launalið sem er hár heldur er þeim gert að starfa eftir fráleitt þungu og dýru kerfi sem einkennist af stöðugt hærri gjöldum og álögum. 

Eftirlitskerfið er að verða eins og í ráðstjórnarríkjunum og kostnaðurinn við báknið verður náttúrulega ætíð greiddur af fyrirtækjunum og þar með fólkinu sem hjá þeim starfar og við þau verslar.   

Það segir ákveðna sögu að við Íslendingar séum í dag í 43.sæti í OECD þegar kemur að samkeppnishæfni fyrirtækja.  Myndum við vilja vera í 43. sæti þegar kemur að frelsi kvenna, almennu læsi eða gæði heilbrigðisþjónustu?  Afhverju sættum við okkur þá við þetta?“

Hann segir að það sé eðlilegt að forysta flokksins sæti gagnrýni, en það sé um leið ódýr lausn.

„Auðvitað er forystu okkar vorkun.  Það lögðu margir mikið á sig til að koma saman þeirri ríkisstjórn sem nú situr og ég hef fullan skilning á því að það þarf að gefa eftir til að halda út það langhlaup sem kjörtímabil er.
Nú er hinsvegar að renna upp ákveðin ögurstund sem við Sjálfstæðismenn þurfum að standa okkur á.  Á þeirri ögurstundu þarf kjark til að gjöra rétt og þola ei órétt.  Hið rétta er að einbeita sér að stóru málunum.  

Í frægri ræðu sagði Ólafur Thors: „Burt, dægur þras og rígur“.

Við verðum að standa vörð um lítil og millistór fyrirtæki og það verður best gert með því að draga úr álögum almennt.  Við þurfum að minnka báknið þessi þenslan er geigvænleg.  Við þurfum að lækka skatta, auka frelsi og treysta einkaframtakinu.  

Verði það ekki gert er hætt við að margir af mínum góðu félögum sem ég hef orðið samferða seinustu tvo tugi ára í gegnum starfið finni sér annan farveg þar sem þessar hugsjónir eru ráðandi.

Ég veit að Bjarni Benediktsson les þetta sama í stöðuna.  Það gerir Davíð Oddson líka, sem og Halldór Blöndal, móðir mín og allir þeir aðrir þekkja Sjálfstæðisflokkinn og vilja að þær hugsjónir sem hann stendur fyrir nái fram að ganga.

Í frægri ræðu sagði Ólafur Thors: „Burt, dægur þras og rígur“.  Þau orð eiga jafn vel við þá og núna.  Við verðum að víkja karpinu til hliðar og einbeita okkur að verkefnunum sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Elliði Vignisson.