Þarf að meta hvort takmarkanir voru réttmætar miðað við tilefnið

Áslaug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra segir ljóst að í fram­tíðinni muni íslensk stjórn­völd þurfa að meta viðbrögð almannavarna og sóttvarnayfirvalda hér við kórónuveirufaraldrinum og kanna hvort þær takmarkanir sem gerðar voru á athafna- og ferðafrelsi fólks voru réttlætanlegar miðað við tilefnið.

Þetta kom fram í viðtali við dómsmálaráðherra í Silfrinu í Ríkissjónvarpinu í morgun. Hún benti þar á að óvissan kringum veiruna hafi verið mikil í upphafi ársins og viðbrögð einstakra ríkja hafi markast mjög af því. Íslensk stjórnvöld hafi fyrirskipað töluverð höft og takmarkanir, en þau hafi engu að síður verið mun minni en í nágrannalöndunum.

Ráðherrann sagði mikilvægt að standa vörð um frelsi fólks og takmarkanir af þessu tagi mættu ekki festast í sessi. Áform um opnun landamæranna 15. júní nk. væru varfærin og tímabær, því koma þurfi atvinnulífinu aftur í gang og ekki sé valkostur að halda landinu lokuðu fyrir umheiminum.

Hvernig sem til takist, sé líklegt að veiran skjóti aftur upp kollinum hér á landi og þá gildi að finna leiðir til að lifa með hanni en halda samfélaginu gangandi.