Þarf líka að reikna kostnaðinn af því að bregðast ekki við

„Ráðherrar segja að ákvörðun Bandaríkjastjórnar hafi komið öllum á óvart. En hvers vegna ætti þetta að koma á óvart? Bandaríkin lokuðu á Kína og fleiri Asíulönd á sínum tíma eftir að Kórónaveirunnar varð fyrst vart. Síðan þá virðist Asía hafa náð einhverri stjórn á vandanum á meðan þetta hefur farið úr böndunum í Evrópu,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra í samtali við Viljann nú í kvöld.

Hann segist ekki viss um að ákvörðun Trumps Bandaríkjaforseta skipti sköpum við sóttvarnir þar í landi, en ákvörðunin hefði að minnsta kosti ekki átt að koma jafn mikið á óvart og hún virðist hafa gert.

Sigmundur Davíð skrifaði grein í Morgunblaðið á mánudeginn þar sem hann hvatti ríkisstjórnina til að taka stjórnina í viðbrögðum landsins vegna kórónavírusins og efnahagslegra afleiðinga hans. Hann hefur verið í veikindaleyfi eftir skurðaðgerð en hver eru viðbrögð hans við tíðindum dagsins? Og telur hann mögulegt að banninu verði aflétt, að því er Ísland varðar?

„Á hvaða forsendum ættu bandarísk stjórnvöld að gera það? Ísland er með hæsta smithlutfall í heimi, ef til vill fyrir utan San Marínó. Þetta gildir um Schengenlöndin og það verður ekki opnað á Ísland á undan öðrum löndum.“

Hver verða að þínu mati áhrifin og hvernig eigum við að bregðast við?

„Áhrifin verða mjög mikil. Mér hefur þótt það augljóst en lokun Bandaríkjanna hraðar því sem stefndi í. Þetta er ástand sem kallar á mjög róttæk viðbrögð stjórnvalda. Ráðherrar endurtaka í sífellu að við séum vel í stakk búin til að takast á við áföll. Það er alveg rétt en það má ekki gleyma því að sú staða varð til með mjög róttækum og óvenjulegum aðgerðum. Nú er aftur tími fyrir slíkar aðgerðir.“

það þarf að snúa tryggingargjaldinu við og gæta að heimilunum

Hvers konar aðgerðum ert þú að kalla eftir?

„Ráðherrar hafa betri upplýsingar en við hin og ég skal viðurkenna að ég vildi að ég væri á daglegum fundum núna til að fá upplýsingar og taka ákvarðanir. Ég get þó sagt að ríkisstjórnin má alls ekki horfa bara á kostnaðinn við aðgerðirnar. Hún þarf líka að reikna kostnaðinn af því að bregðast ekki við. Ríkið hefur oft átt erfitt með slíkan útreikning.
Sem dæmi má nefna að það þarf að snúa tryggingargjaldinu við. Fyrirtæki hafa lengi ofgreitt það gjald. Nú þarf ríkið að borga til baka til fyrirtækja á ákveðnum sviðum til að halda fólki í vinnu. Það er mun ódýrara en að missa fólkið á atvinnuleysisskrá, svo ekki sé minnst á andlegu áhrifin.

Áhrifin munu smitast um allt hagkerfið. Áður en þetta krísuástand kom upp voru mjög mörg fyrirtæki skattpínd og að reka sig frá viku til viku. Þau mega ekki við tekjufalli og samfélagið má ekki við því að þau fari í þrot. Það þarf að létta af þeim álögum og jafnvel greiða með starfsmönnum tímabundið eins og ég nefndi.

Ef ég má nefna eitt að lokum er það mikilvægð þess að áhrif aðgerðanna skili sér beint til heimilanna. Vaxtastig er að lækka um allan heim. Það þarf að skila sér til heimilanna í formi lægri afborgana af lánum. Það þarf að einfalda endurfjármögnun lána, t.d. með því að fólk sem er með er með lán þurfi ekki að fara í greiðslumat til að endurfjármagna á betri kjörum.“

Ertu bjartsýnn á að við förum í gegnum þennan skafl?

„Við munum gera það. En það hversu vel tekst til veltur alfarið á því að stjórnvöld grípi til aðgerða sem eru í samræmi við ástandið. Það voru mikil undirliggjandi vandamál í hagkerfum heimsins. Þetta getur orðið skammtímakrísa eða upphafið að heimskreppu. Það veltur á viðbrögðum stjórnvalda.“