Lögreglan á Austurlandi hefur birt nöfn þeirra þriggja sem létust í hinu hörmulega flugslysi við Sauðahnúka á hálendinu sl. sunnudag.
Þar kemur fram að þau sem létust voru við reglulegar hreindýratalningar á vegum Náttúrustofu Austurlands þegar slysið varð.
Nöfn hinna látnu eru Fríða Jóhannesdóttir, spendýrafræðingur á Náttúrustofu Austurlands, fædd 1982, Kristján Orri Magnússon, flugmaður, fæddur 1982, og Skarphéðinn G. Þórisson, fæddur 1954, líffræðingur á Náttúrustofu Austurlands.
Um leið og aðstandendum er vottuð innileg samúð, er rétt að minna á minningarstund sem haldin verður í Egilsstaðakirkju í dag klukkan 18. Lögreglan vill ennfremur minna á samráðshóp almannavarna um áfallahjálp sem í boði er fyrir þá sem eiga um sárt að binda eftir flugslysið.