Þegar jafnaðarmennskan gengur of langt

Íslandsvinurinn Dr. Jordan B. Peterson hefur skrifað greinaflokk upp úr fyrirlestraröð sem hann hélt eftir útgáfu sjálfshjálparbókarinnar Lífsreglurnar tólf: Mótefni við glundroða, sem hann gaf út í janúar í fyrra. Bókin varð að alþjóðlegri metsölubók, og hafa selst um þrjár milljónir eintaka af henni um allan heim.

Í þessari grein gagnrýnir hann jafnaðarstefnu sem honum finnst hafa gengið of langt, og fer hér á eftir stutt þýdd samantekt úr henni.

—————–

Eftir dr. Jordan B. Peterson:

Slagorðin um fjölbreytileika, jöfnuð og þátttöku allra er kannski helsta einkenni hugmyndafræði róttæks minnihluta hóphyggjufólks, sem virðist hafa tekið yfir hug- og félagshyggjudeildir vestrænna háskóla, og í vaxandi mæli, ráðningarskrifstofur fyrirtækja.

Af þessum þremur, er jöfnuður sláandi verst, mest sjálfsupphefjandi, hættulegastur og hann tekur minnst tillit til sögulegs samhengis. Orðið jöfnuður er hannað til að að höfða til mannlegrar hneigðar til réttlætis. Jöfnuður er ekki það jafnrétti sem Vesturlönd grundvallast á, jafn réttur fyrir lögunum og jöfn tækifæri.

Jafnrétti fyrir lögunum þýðir að hver og einn borgari skuli fá réttláta málsmeðferð fyrir dómi — burtséð frá stöðu sinni. Að ríkisvaldið haldi í heiðri að hver og einn einstaklingur sé verðmætur, og veiti ríkisvaldinu aðhald, og þvingi það til að umgangast sig af virðingu. Það er líklega engin stærri grundvallarstoð til, í menningu og samfélagsskipan Vesturlanda.

Rétturinn til jafnra tækifæra opnar á þá staðreynd að hæfileikar eru mjög dreifðir og sjaldgæfir. Það ætti ekki að koma neinum á óvart, að sumir eru miklu betri en aðrir í að sinna ákveðnum verkefnum. Einmitt þessvegna eru það hagsmunir allra að leyfa slíkum hæfileikum að koma fram og njóta sín, öllum til hagsbóta. Það þýðir að enginn skyldi hindraður í að stíga fram og vinna sitt framlag, vegna ástæðna sem eru verkefnunum sjálfum óviðkomandi. Þetta er t.d. grundvallaratriði frjáls markaðar.

Jöfnuður er allt annað fyrirbæri. Hann byggir á hugmyndinni um að eina mælistikan á jafnrétti sé niðurstaðan — menntun, félagslegir og starfstengdir þættir.

Kerfisbundin mismunun

Jafnaðarmenn fullyrða að ef að allar stöður á öllum stigum þjóðfélagsins endurspegli ekki meðaltalsúrtak þjóðfélagsins, að þá hljóti að vera kerfisbundin mismunun að verki (rasismi, kvenfyrirlitning, hommafóbía o.s.frv.).

Hugmyndafræðin gerir ráð fyrir því að misgjörðamenn (forréttindahópar, í nútíma eða eldra samhengi) hagnist á óréttlátan hátt á þessu kerfi, eða séu beinlínis gerendur á grundvelli fordóma. Hina ímynduðu forréttindahópa þurfi að finna, stöðva og refsa.

Það er einfaldlega engin afsökun fyrir þesskonar málflutningi. Til að byrja með er þar notast við ofureinföldun hugmyndafræðinga: Að ein orsök (t.d. fordómar) séu næg skýring á afar flóknu fyrirbæri (ójöfnuði, sem er mikið margslungnari en svo, en að hægt sé að skella sökinni á óskilvirka félagslega samvirkni).

Í annan stað er ómögulegt að koma kerfi sem skilar algerum jöfnuði á. Það eru einfaldlega of margar stofnanir, fyrirtæki og stöðugildi, fyrir utan að það er útilokað að meðhöndla fólk innan minnihlutahópa á jafnan hátt skv. þessari hugmyndafræði, vegna skörunar við aðra hópa og fjölbreytileika einstaklinganna.

Að lokum er verið að koma þessu nýja fyrirkomulagi á með þjósti þeirra sem trúa á, að það sé óumdeilt að Vesturlönd séu kúgandi feðraveldi. Fyrir þessum algera sannleika er barist um á hæl og hnakka gegn efasemdum, sama hversu fáránleg röksemdafærslan verður.

Ég er þó bjartsýnn og vona heitt og innilega, að þessi málflutningur öfgavinstrisins um jöfnuð, innihaldi nógu mikið af andstæðum til að grafa undan sjálfu sér, og molni þannig í sundur innan frá.

Hinn fullkomni jöfnuður

Ímyndið ykkur í smástund hvað yrði að gerast til að fullkominn jöfnuður náist fyrir alla hópa.

Byrjum á kynjajöfnuði. Það má nota vinnumarkaðstölfræði Bandaríkjanna til þess. Til að byrja vinnuna gætum við reynt að koma auga á misgjörðamennina í hinum kerfisbundna ójöfnuði og horfa á karlmenn, þar sem að þeir eru hinir einu sem bent hefur verið á í þessu samhengi, og sleppt því að skoða hvar konur gætu haft forréttindi. Yfir 99% týpiskra karlastarfa eru ekki að vera forstjórar og framkvæmdastjórar. Karlastörfin eru að vera bifvélavirkjar, vélamenn og rafiðnaðarmenn, málmiðnaðarmenn, píparar, gröfumenn, ýtustjórar, kranamenn, gleriðnaðarmenn, byggingaverkamenn og málarar, og ásamt viðskiptatengdum störfum. Á móti eru 97,5% kvenna í störfum sem tengjast umönnun og aðstoð.

Það virðist ekki vera eintóm ímyndun hjá mér að allur þessi hávaði um „karlaveldið“ sé ekki beint að þeirri staðreynd að mun fleiri karlar en konur séu í vöru- og viðskiptatengdum störfum. Né virðist það ósanngjarnt að benda á að þau störf séu ekki sérlega hátt skrifuð, jafnvel þó að þau geti verið ágætlega borguð. Það er líka augljóst að í engum þessara staða og stigvelda, séu þau tekin út fyrir sviga, ríkir neitt af því sem gæti með vandlegri umhugsun kallast kúgandi feðraveldi sem miði að því að skilja konur útundan. Þvert á móti eru viðskiptastörf samsett af vinnandi fólki, í erfiðum og aðdáunarverðum störfum, sem halda ótrúlega flóknum, áreiðanlegum og í raun kraftaverki líkum innviðum þjóðfélagsins gangandi í öllum veðrum, dag sem nótt og ættu að hljóta fyrir það lof og hrós.

Gefum okkur að við ætluðum að miða að jöfnuði samt sem áður, og velta þá fyrir okkur hvaða stefnur og strategíur við ættum að notast við til að geta komið honum í framkvæmd. Við myndum koma á lagalegri jafnlaunavottun og kynjakvótum á öllum stigveldum skóla, námskeiða, stofnana og fyrirtækja.

Á fimm ára fresti yrðu þau að sæta eftirliti á öllum stigum til að fylgjast með því að lögunum væri framfylgt. Væri þeim ekki framfylgt yrðu þau að sæta sektum. Í verstu tilfellunum yrði fólki sagt upp störfum til að jafnaðarstefnu í atvinnulífinu yrði fylgt eftir.

Í skólunum yrði að sjá til þess að jafn margar stelpur og strákar fengju jafn góðar einkunnir í öllum fögum. Banna yrði barnabækur sem sýna konur í umönnunarstörfum og karla í sígildum karlastörfum, en ýta að börnunum bókum sem sýna hið gagnstæða. Þegar öllu þessu væri lokið, þá yrði að beina sjónum að fleiri þáttum, eins og kynþætti og kynhneigð, stöðu, útlitslegum yfirburðum, líkamlegum yfirburðum, skapgerð, menntun og greind.

Getum við stoppað í smá stund og reynt að sjá fyrir okkur hið gríðarlega skriffinnskubákn sem þyrfti til að koma þessu öllu í framkvæmd, með öllu sínu eftirliti, ásökunum og sektum, ásamt þeim manngerðum sem yrðu tilbúin að taka slík verkefni að sér?

Hvað með frjálst val?

Höldum við virkilega að þetta geti leyst fleiri vandamál það skapar? 

Hvað með frjálst val kvenna, sem þær hafa nú þegar, og virðast nota í að velja sér umönnunarstörf og öryggi?

Eigum við að gera ráð fyrir að þær séu að velja rangt?

Í sannleika sagt, þá er engin afsökun fyrir þessum jafnaðaráróðri. Talsmenn hans gera enga tilraun til að ræða þá starfsvettvanga þar sem að mesti kynjamunurinn fyrirfinnst. Þess í stað er þess krafist að honum sé breytt með valdi, þrátt fyrir að menn geri sér grein fyrir hvað það þýðir.

Skeytingarleysi ríkir um tölfræði sem sýnir hvaða störf karlar og konur velja sér af frjálsum vilja og þann möguleika að konur gætu verið að meta tíma umfram peninga í vali á starfi. Þess í stað er notast við áróður um að karlmenn á Vesturlöndum séu grimmir og óréttlátir. Niðurstaðan er að allur mismunur hljóti að vera óréttlátur.

Það er vitað að vinstrið getur gengið of langt. Sovétríkin, Maóistar og Rauðu Khmerarnir sýndu fram á það. Norður-Kórea, Kúba og Venesúela eru að sýna fram á það.

Við virðumst ekki átta okkur á því hvar og hvenær of langt gengið byrjar.

En ég er tilbúinn að benda á jafnaðaráróðurinn í þessu samhengi. Hann er algerlega óafsaklanlegur, bæði í orði og á borði og honum ætti hafna, hvað sem það kostar.