Þegar kýrnar í fjósinu hjá atvinnurekendum baula erum við að gera eitthvað rétt

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, varði af hörku nýbreytt búvörulög á þingi í gær og ræddi um leið mikilvægi íslensks landbúnaðar.

„Í gær voru samþykkt lög um breytingu á búvörulögum hér í þinginu. Lögin setja mikið traust á bændur og afurðastöðvar í þessu landi. Ég treysti bændum og ég treysti afurðastöðvunum til að skila því sem þessi lög boða til neytenda og bænda.

Það hefur enginn skilað landinu í betra ásigkomulagi til okkar en bændur. Gott dæmi um það eru Almenningar inn á Þórsmörk sem eru kafloðnir af grasi og bændur hafa á undanförnum árum ræktað upp. Sjálfbær landnýting er bændum í blóð borin og nýframkomin reglugerð er nánast móðgun við þá sem unna landinu mest.

Það er merkilegt í þessari umræðu að upplifa að þeir sem berjast fyrir kjörum almennings á almennum vinnumarkaði ráðast nú sem aldrei fyrr á afkomu bænda með nýsamþykktum búvörulögum. Það kom fram í ræðu í gær að ein vinnustund í sláturhúsi í kringum árið 1970 hafi verið metin á minna en kíló af kjöti. Í dag er vinnustundin metin þrefalt meiri en kíló af kjöti til bænda.

Það er merkilegt að við verjum íslenskan vinnumarkað fyrir innflutningi á ódýru vinnuafli frá Evrópusambandinu og það dettur engum í hug annað en að koma í veg fyrir það að hingað verði flutt ódýrt vinnuafl til að vinna fyrir ekki neitt, en þeir sem njóta þeirrar verndar skuli ráðast á bændur fyrir að þeir sitji við sama borð og bændur í nágrannalöndunum. Hvers konar framkoma er þetta við bændur?

Ég verð nú að segja það, virðulegur forseti, að þegar kýrnar í fjósinu hjá atvinnurekendum fara að baula þá held ég að við séum að gera eitthvað rétt í þinginu. Það er nú kannski bara óvirðing við kýrnar að vera að tala um þennan félagsskap í sömu andrá og þær. Styðjum íslenska bændur til framfara, styðjum framleiðslu þeirra og kjör sem verkalýðsforystan virðist vera búin að gleyma hver eru,“ sagði þingmaðurinn.