„Þegar maður reynir að vera fyrir alla, þá er maður fyrir engan“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var gestur Bjartar Ólafsdóttur í þættinum Þingvöllum á K100 í morgun.

„Ég hef ekki stefnt á að höfða til allra,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra í þættinum Þingvöllum á K100 í morgun, en Björt Ólafsdóttir spurði hann út í það hversvegna hann væri og hefði frá upphafi verið umdeildur.

„Þegar maður reynir að vera fyrir alla, þá er maður fyrir engan,“ sagði Sigmundur Davíð jafnframt, sem vill leggja áherslu á skýra sýn og stefnumálin. Hann segir aukna hópamyndun varðandi skoðanir og þróunin sé vaxandi fordómar gagnvart öðrum hópum og lítill skilningur á því að til séu ólík viðhorf. 

Sigmundur gagnrýnir að stjórnmálin, hérlendis og víðar, séu að þróast í sjálfsmyndar- og ímyndarpólitík í stað þess að snúast um málefnin: „Menn eru þá að reyna að vekja á sér athygli, sem ganga út á persónuleg átök og níða skóinn af andstæðingnum. Þegar pólitíkin fer að snúast um það, þá er hún ekki að virka, þá hætta menn að tala um stefnumálin og fylgja þeim eftir, en láta embættismennina og kerfin, jafnvel fjármálakerfin, um stjórn landsins,“ sagði hann.

„Ruglumræða“ yfirskyggði stór mál

Um Klaustursmálið segir Sigmundur Davíð að margir mánuðir hafi farið í „ruglumræðu“ og meðal annars á þinginu. „Fjárlögin runnu í gegn nánast athugasemdalaust, stór óleyst mál eins og t.d. staða landbúnaðarins gleymdist, svo kom hvert alvöru málið á fætur öðru. En það hentar ef til vill sumum, að reyna að komast hjá rökræðu með umræðu um eitthvað annað.“

Hann segir að þegar það henti að tala um slíkt frekar en pólitíkina, þá líði kjósendur fyrir það og gagnrýnir að hlutir sem séu líklegri til að fá fleiri smelli á netinu séu hafðir í öndvegi hjá fjölmiðlum frekar en hlutir sem skipti máli eins og t.d. efnahagsmálin.

„En þetta er þróunin sem er að verða með breyttri tækni á miðlun upplýsinga. En eins og í þessu tilviki þá verður umræða um svona mál líka erfiðari.“ Hann segir að ómögulegt sé að rökræða eitthvað sem sé búið að klippa saman og setja í nýtt samhengi.

Upp er komin ný staða á Alþingi eftir að tveir f.v. þingmenn Flokks fólksins bættust í Miðflokkinn. Sigmundur segir að enn hljóti að standa til að stokka upp í nefndum, um það hafi verið rætt þegar Bergþór Ólason var látinn víkja tímabundið úr formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd. Jafnframt hljóti þingið að verða að starfa eftir þeim reglum sem um það gilda. 

Spurður um kynjahlutföllin í þingflokki Miðflokksins, sem nú samanstendur að mestu af miðaldra karlmönnum: „Menn geta auðvitað ekkert að því gert, hvernig þeir fæðast,“ segir Sigmundur Davíð. Aðeins örfáum atkvæðum hafi munað að flokkurinn næði fleiri konum inn sem þingmönnum í kosningunum. Í sl. viku svo bæst við tveir karlar. Allir starfsmenn flokksins séu þó konur og gríðarmikið af öflugum konum í flokknum. „Svo erum við með eina sem lætur heldur betur finna fyrir sér í borginni.“

Málþóf Miðflokksins vegna 30 milljarða, jafnræðisreglu og orðspors

Um málþóf Miðflokksmanna á dögunum vegna aflandskrónanna segir Sigmundur Davíð: „Þetta voru einir 1.200 milljarðar sem menn óttuðust að rynnu úr landi og settu hér allt á hliðina. Meirihlutinn var afgreiddur með slitabúunum, þar sem ríkið fékk um helminginn. Það gerðist ekki af sjálfu sér, ýmislegt var reynt, en stjórnvöld sýndu að þeim væri alvara og myndu fylgja sögunni eftir til enda. Þeir sem eftir voru áttu að sæta samskonar skilyrðum. En strax vorið og sumarið 2016 er byrjað að draga í land og gefa eftir. Þó þurfti að greiða gjald, en menn byrjuðu að fá að taka peningana út á sífellt sanngjarnara verði. Nú fá þeir sem síst af öllu vildu semja áður bara allt sitt.“

Sigmundur Davíð segir stjórnvöld hafa gefið slæmt fordæmi. „Árangurinn í stóru aðgerðunum byggðist á trúverðugleika og eftirfylgni. Kröfuhafarnir þurftu að greiða verulegt gjald, nema núna fyrir þessa síðustu 84 milljarða. Hefði upphaflega planinu verið fylgt eftir, hefðu líklega um 30 milljarðar orðið eftir, í staðinn fyrir ekkert.“

Jafnræðis hafi ekki verið gætt, nú gætu þeir sem sömdu talið sig óréttlæti beittir, og Sigmundur Davíð vonast nú til að ekki verði eftirmálar af því.

Sigmundur Davíð segist vona að það hafi ekki verið pólitísk stefna að láta þetta fara svona, frekar afleiðing af stefnuleysi sem skapast af því að láta pólitíkina reka á reiðanum og láta kerfið taka yfir.

Hann vonast eftir meiri umræðu um flókin mikilvæg mál. Í Icesave-málinu, sem hafi verið miklu stærra mál, en valt að sama skapi á staðfestu stjórnvalda, hafi til að byrja með ekki hlotið mikinn skilning og fólk hafi þótt það vera „vesen“ hjá InDefence hópnum að vilja taka það upp. Hann segist hafa lært það af reynslunni að stundum verði að taka á sig „skammir“, og vonast til að með aukinni umræðu í framhaldinu, nái menn að setja sig inn í málin. Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins hafi sagt í viðtali í Morgunblaðinu, líkt Icesavesamningunum við Versalasamningana, sem hafi verið afarkostir, en á sínum tíma hafi það ekki verið augljóst.

„Stóru pólitísku málinu eru oft miklu erfiðari og ósöluvænni framan af, heldur en dægurmálin.“

„Allsherjarklúbbur“ og samkrull stjórnmálamanna og embættismanna

Spurður hví gusti svona af Miðflokknum, bæði á Alþingi og í borginni segir Sigmundur Davíð að það sé vegna þess að flokkurinn vilji breytingar og þeir sem sitji þægilega í sínu fleti finnist það e.t.v. ógnandi. Hann talar um einn „allsherjarklúbb“ í borginni, borgarstjóri vísi á embættismenn í þeim málum sem þar hafa farið úrskeiðis, sem kveinki sér síðan undan gagnrýni Miðflokksins. Um ískyggilega þróun sé að ræða þegar pólitíkin og embættismennirnir séu komnir í slíkt samkrull.

Hann segir þó góða embættismenn mikilvæga og tekur fram að hann sé ekki að gagnrýna þá, heldur mun fremur stjórnmálamennina sem með framtaksleysi sínu, skilji þá eftir með verkin, en hlutverk embættismannanna sé að vera til ráðgjafar og að framkvæma í samræmi við pólitískan vilja.

Embættismenn eiga ekki að stjórna

„Embættismenn eiga ekki að stjórna, en þeir eru settir í þá stöðu, af stjórnmálamönnunum.“

Spurður hvort Íslandi sé betur borgið án EES-samningsins segir Sigmundur Davíð: „Það hafa verið kostir og gallar, en við þurfum að gæta að því að fylgja ekki öfugþróun. Haldið er áfram á braut samþjöppunar hjá ESB, frekar en að taka tillit til sérþarfa ýmissa landa innan þess, en eftir því sem óánægja landanna með þetta verður meiri virðist verða meiri samþjöppun.“

Þjónustutilskipunin, landbúnaðarmálin og 3ji orkupakkinn kalli á sterka hagsmunagæslu af Íslands hálfu á öllum stigum, í staðinn fyrir að humma það af sér og segja „þetta er löngu ákveðið.“

Sigmundi Davíð finnst ekki rétt að íslenskur landbúnaður verði að keppa við tollverndun og verksmiðjubú í ESB sem dæli sýklalyfjum í dýrin og sé með starfsfólk á lágmarkslaunum. „Íslenska fjölskyldubúafyrirkomulagið sem verið hefur hér frá landnámi yrði í verulegri hættu. Það hlýtur að vera þess virði að taka slaginn.“

Að lokum sagði Sigmundur Davíð óskiljanlegt hvernig lægst launaða fólkið, eldri borgarar og öryrkjar geti lifað af sínum tekjum. Honum finnst nú skorta umræðu og tillögur um breytingar á vinnufyrirkomulagi, til að kjarabætur nýtist sem best. 

Hann hefði, að sögn, valið aðra leið en ríkisstjórnin ætlar að leggja til. „Það hefði miklu frekar átt að taka því fagnandi sem verkalýðshreyfingin hefur verið að tala um, að endurskipuleggja fjármálakerfið,“ segir hann og telur að gera mætti einskonar þjóðarsátt um það mál.

„Ekkert væri eins mikil kjarabót fyrir allan almenning og fyrirtækin, eins og heilbrigðara fjármálakerfi og lægri vextir,“ og vísar í heildarstefnu Miðflokksins fyrir síðustu kosningar um endurskipulagningu fjárlmálakerfisins.

Tækifæri hafi verið til þess undanfarið þar eð verðbólga hafi verið í sögulegu lágmarki, ríkið hafi fengið bankana í fangið og fyrir liggi að endurskoða lífeyrissjóðakerfið.