„Það er sjálfsagt að leggja við hlustir, þegar Baudenbacher leggur fram umbeðna álitsgerð um álitamál í Evrópurétti. Íslendingar gleyma því seint, að hann var í forsæti EFTA-dómstólsins, þegar sá dómstóll sýknaði Íslendinga af kröfum ESA, sem einnig nutu þá stuðning Evrópusambandsins,“ segir Jón Baldvin Hannibalsson fv. utanríkisráðherra þegar Viljinn óskaði eftir viðbrögðum hans við áliti Carls Baudenbacher, fv. forseta EFTA-dómstólsins, sem utanríkisráðherra kynnti fyrir ríkisstjórn í gær.
Jón Baldvin segir að Baudenbacher njóti virðingar á sínu sérsviði, en hann sé að sama skapi umdeildur maður.
„En þá ber einnig að hafa í huga, að hann er fyrst og fremst að fjalla um pólitískt álitamál. Hann véfengir ekki, frekar en aðrir sérfræðingar í Evrópurétti, að Ísland hefur samningsbundinn rétt til að hafna innleiðingu gerða Evrópusambandsins í landsrétt; að fyrir því eru fordæmi, og að það hefur gerst án sérstakra viðurlaga. Hann véfengir ekki þessi grundvallaratriði. Í slíkum tilvikum ber að flytja málið í sameiginlegu EES-nefndinni og semja um ásættanlega niðurstöðu,“ bætir Jón Baldvin við.
Ekki lögfræði, heldur pólitík
Og hann segir ennfremur:
„Kjarni málsins í því, sem Baudenbacher segir, er þetta:
Það veikir mjög málstað Íslands gagnvart viðsemjendum að hafa ekki á fyrri stigum málsins lýst sérstöðu og nákvæmum fyrirvörum í þessu máli. Það er áreiðanlega rétt hjá honum. Íslensk stjórnvöld hafa haldið illa á málinu frá upphafi vegar. Um það þarf ekki að deila. En þegar veigamiklir þjóðarhagsmunir eru í húfi er seint betra en aldrei.
Þetta er hins vegar ekki lögfræði, sem er sérsvið Baudenbachers. Þetta er pólitík. Á því sviði vega orð hins svissneska lögfræðings — góður og gegn sem hann er — ekki þyngra en annarra.
Það var síendurtekin neikvæð gagnrýni svissneskra lögfræðinga á EES-samninginn, þegar hann var í smíðum, sem olli því að svissneska þjóðin felldi EES-samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur kostað þá þrálát vandræði í meira en aldarfjórðung.
Í staðinn hafa Svisslendingar orðið að leysa samskipti sín við Evrópusambandið í óteljandi tvíhliða samningum,sem hefur kostað þá mikinn tíma og fyrirhöfn til þessa dags,“ segir Jón Baldvin ennfremur.