Theresa May tilkynnir fyrirhugaða afsögn: „Mér mistókst að ljúka Brexit“

May tilkynnir afsögn sína.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, tilkynnti um afsögn sína fyrir framan Downingstræti númer 10 í Lundúnum, nú rétt áðan.

Hún mun láta af formennsku í Íhaldsflokknum hinn 7. júní nk. og sitja áfram sem forsætisráðherra uns nýr formaður flokksins tekur við embættinu innan nokkurra vikna.

May sagðist verða að viðurkenna að sér hefði mistekist að ljúka Brexit, en undir lokin brast rödd hennar er hún sagðist elska starf sitt sem forsætisráðherra, hún yrði sannarlega ekki síðasta konan til að sinna því og hún hefði gert sitt allra besta, enda þótt það hefði ekki gengið upp á endanum.

Í morgun varð endanlega ljóst, að May hafði ekki lengur nokkurn stuðning innan Íhaldsflokksins til að halda áfram.

May flutti tilfinningaríka yfirlýsingu á þessum sögufræga stað og tók fram undir lokin að hún bæri ekki illan hug til nokkurs manns eftir allt sem á undan er gengið.