Þess vegna ættum við að tala fyrir lögleiðingu á vímuvörum

Kristófer Alex Guðmundsson, forseti Uppreisnar á milliþingi Viðreisnar sl. laugardag. Ljósmynd/Viðreisn

„Frelsið hefst við þolmörk. Það er ekkert merkilegt í sjálfu sér við það að veita fólki frelsi til þess að gera hluti sem maður er sammála. Þess vegna ættum við að tala fyrir lögleiðingu á vímuvörum. Það er kominn tími til að taka vímuvörur úr höndum ofbeldismanna og vernda neytendur. Ef við hugsum ekki á framsækinn máta þá vöknum við einn daginn og áttum okkur á því að við höfum glatað tilgangi okkar,“ var á meðal þess sem Kristófer Alex Guðmundsson, forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar, á Milliþingi Viðreisnar sl. laugardag. Erindið fjallaði um ungt fólk, Evrópi, frelsi og vímuvörur.

Um tilgang ungliðahreyfingarinnar hafði Kristófer Alex þetta að segja í ræðu sinni:

„Uppreisn er ekki hér að ástæðulausu. Við viljum byggja upp flokk sem hefur aldrei áður sést í íslenskum stjórnmálum. Frjálslyndur, evrópskur flokkur sem talar raunverulega fyrir frelsi. Menn kunna að spyrja sig, af hverju er ungt fólk að tala um Evrópu, höfum við það ekki fínt hér? Evrópa er svo miklu meira heldur en reglugerðir og samningar, Evrópa snýst um gildi. Evrópa snýst um að byggja upp samstarf aragrúa þjóða á máta sem er á sér enga hliðstæðu í mannkynssögunni. Hvergi annars staðar í heiminum er hægt að finna samband þjóða sem eru jafn samstíga í mannréttindum, efnahagslegri framför og friði. Hún snýst um fólk sem þorir að standa með þeim sem neyðast til að flýja heimkynnin sín þegar svo auðvelt væri að vísa þeim á brott. Það eru evrópsk gildi. Allt í kringum mig er ný kynslóð af frjálslyndu, ungu fólki sem vill taka fullan þátt í Evrópu.“

Lokaorðin voru:

„Viðreisn er frjálslyndur flokkur. Við höfum sýnt það í verki og við munum alltaf halda okkar frjálslyndu gildum á lofti. Viðreisn er flokkurinn sem vantaði fyrir þau okkar sem hafa verið landlaus í íslenskri pólitík. Óttumst ekki að vera framsækin, látum heyra í okkur og gleymum ekki frelsinu.“