Þessi glufa er stór hættuleg fyrir þjóðina og þá sem hér búa

„Ég hef aldrei áður sogast inn í þjóðfélagsumræðu eins og þá sem er í gangi núna um Orkupakka ESB. Reynslan af því er óþægileg. Mín aðkoma að þessu máli er byggð á samfélagslegri ábyrgð, að mér finnst, enda hef ég engar hvatir í þessu máli. Hvorki pólitískar né fjárhagslegar. Ég er bara Íslendingur sem kynnti mér málið og sýnist við vera að fara óhagstæðar leiðir fyrir land og þjóð.“

Þetta segir Sigmar Vilhjálmsson, fjölmiðlamaður og framkvæmdastjóri, í færslu á fésbókinni um þriðja orkupakkann, en andstaða hans í þeim efnum hefur vakið athygli að undanförnu.

Sigmar segist hafa tvennt sérstaklega við þriðja orkupakkann að athuga:

  • Þeir sem vilja ólmir koma Íslandi inní ESB, þeir eru harðir á því að þetta sé gott fyrir okkur, enda risa stórt skref fyrir okkur í þá átt. 
  • Þeir sem sjá hagsmuni í því að markaðsvæða (einkavæða) orkufyrirtækin. Því það eru hópar fjárfesta hér á landi sem sjá gríðarleg tækifæri í að eignast hluta af þeim „buisness“. Enda hefur umræðan um að selja hluta af Landsvirkjun verið í umræðunni hjá mínum flokki, sjálfstæðismönnum, í gegnum árin. Geir H. Haarde 2003, Bjarni Ben 2014 ofl. dæmi sanna það. 

Sigmar segist ekki hafa enn fengið röksemdir með þessu, sem sýni fram á hagsmuni Íslands. Enda séu þær fáar.

„Neytendavernd, gagnsæi og samkeppni er það helsta sem kemur upp. En er þjóðin óánægð með að búa við eitt lægsta orkuverð í heimi og að orkufyrirtækin sem við eigum saman eru að skila hagnaði til þjóðarbúsins?Hver er þörfin á breytingu?“ spyr hann.

Hann bendir á að sumir segi að okkur verði kastað út úr EES ef við samþykkjum þetta ekki. Samt skipti þetta í raun engu máli af því að það gerist ekkert nema við tengjumst með sæstreng og það verði aldrei.

„Þetta er mjög mótsagnakennt og skrítið,“ segir Sigmar og bætir við að enn aðrir hræði þjóðina með því að ef orkupakkinn verður ekki innleiddur, þýði það að okkur Íslendingum verði kastað útúr EES samningnum.

„Er það? Orkumálastjóri ESB hefur sagt það nýlega að þetta skipti okkur engu máli. Það þýðir á mannamáli að þetta skiptir þá ekki máli heldur. 
Minn ótti er að hér verði orkufyrirtæki okkar landsmanna einkavædd. Það er eitthvað sem ég get ekki hugsað mér. Sumt einfaldlega gerir maður ekki til að græða pening og þetta er efst á blaði þar,“ segir hann.

Þarf grundvallarendurskoðun

„Mistökin okkar voru að skrifa undir Orkupakka 1 og 2. Þessi málaflokkur þarf grundvallar endurskoðun okkar sem þjóðar, enda er þetta undirstaða búsetu okkar hér á landi.  Ég vildi óska þess að einhver gæti stigið fram og sýnt mér með óyggjandi hætti að heimilin og fyrirtækin í landinu þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að hér verði fákeppnismarkaður einkaaðila sem munu fara með orkumál þjóðarinnar í framtíðinni. 

Fyrirvarar eru veikir, samkeppnislög eru skýr. Ríkið mun aldrei geta staðið á því að vera í samkeppni við einkaaðila í markaðsvæddu orkuumhverfi. Slíkt mun ekki endast. Gerist það á 5 árum, 10 árum eða 40 árum?

Skiptir ekki máli, þessi glufa er stór hættuleg fyrir þjóðina og þá sem hér búa. Ef það er eitthvað mál sem við höfum staðið frammi fyrir sem ætti að fá okkur til að setjast niður og velta alvarlega vöngum yfir samstarfi okkar við EES, þá eru það þessi mál. Orkumál þjóðarinnar. Ég trúi því samt að það sé hægt að fara í endurskoðun á þessum mistökum okkar og landa betri og tryggari niðurstöðu fyrir Ísland,“ segir Sigmar Vilhjálmsson.