Þessi skoðanakönnun hlýtur að vera áfall fyrir þetta fólk

Brynjar Níelsson fv alþingismaður.

„Frá því að vinstri stjórnin var mynduð snemma árs 2009 hafa stuðningsmenn hennar krafist nýrrar stjórnarskrár. Þeir hafa alla tíð haldið því fram að það sé krafa þjóðarinnar,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í færslu á fésbókinni, þar sem hann deilir frétt Viljans, þar sem segir að stærri hluti landsmanna sé mjög ánægður eða frekar ánægður með núgildandi stjórnarskrá en þeir sem eru frekar óánægðir eða mjög óánægðir með hana.

Brynjar segir marga enn vera þeirrar skoðunar að það verði að vera „nýja stjórnarskráin“ sem nokkrir áhugamenn skrifuðu um sumar seint í ágúst á árinu 2011, væntanlega í nafni þjóðarinnar, sem taki við af þeirri sem nú gildir.

„Þessi skoðanakönnun hlýtur að vera áfall fyrir þetta fólk. Að vísu þarf að endurskrifa kaflann um hlutverk og valdsvið forseta Íslands til að koma í veg fyrir ranghugmyndir nýkjörinna forseta í hvert sinn þegar þeir birtast á sviðinu. Jafnvel lagfæra sumt nær nútímanum og veruleikanum,“ bætir hann við.