„Þessi veira er skringi­leg skepna með fullt af stökk­breyt­ing­um“

Kári Stefánsson á fundi Almannavarna. / Lögreglan.

„Þessi veira er skringi­leg skepna með fullt af stökk­breyt­ing­um,“ var meðal þess sem dr. Kári Stef­áns­son, for­stjóri Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar, sagði á upp­lýs­inga­fundi Al­manna­varna í dag, en þar greindi hann frá niðurstöðum rannsóknar vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar og lækna á Landspítalanum á Covid-19 veirunni hér á landi, en þær birtust í ritrýndri grein í New Eng­land Journal of Medic­ine.

Benti Kári á að stökk­breyt­ing­artíðni veirunn­ar virðist lág og hún hafi fengið ýmis tækifæri til að stökkbreytast frá manni til manns. Unnt sé að greina mismunandi mynstur fyrir þau lönd sem smit eru rakin til og í ljós hafi komið að meðan íslensk sóttvarnayfirvöld voru með góðum árangri að einbeita sér að áhættusvæðum þar sem Íslendingar voru á skíðaferðalagi hafi veiran læðst hingað til lands með ferðafólki, íslensku og erlendu, annars staðar frá, til dæmis Bretlandi.

Sagði hann tölfræðina á covid.is til marks um þann magnaða árangur sem hefði náðst í smitrakningu hér á landi, semsé að öll tilfelli nema átta væri búið að rekja. „Það er alveg ótrúlegur árangur,“ sagði hann og sagði tilefni til að standa upp og klappa fyrir þríeykinu og smitrakningarliðinu og hrópa því til heiðurs.

Kári kvaðst bjartsýnni en sóttvarnalæknir á að bóluefni gegn veirunni finnist fyrr en seinna, hann vonist til þess að það verði innan árs.

Frá upplýsingafundi Almannavarna í dag. / Lögreglan.

Í máli Kára kom einnig fram, að Íslensk erfðagrein­ing er þegar byrjuð að skima eft­ir mót­efn­um fyr­ir kór­ónu­veirunni í blóði hjá fólki. Á aðeins nokkrum dögum sé búið að mæla mótefni hjá um 800 manns, en tilgangurinn sé að komast að raunverulegri dreifingu veirunnar í íslensku samfélagi.

Þótt rannsóknin sé enn á byrjunarstigi benti margt til þess að flestir þeirra sem sýkjast hafi með því myndað mótefni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að síðar í mánuðinum hefjist almenn mótefnamæling hér á landi. Hún eigi að geta gefið skýrari mynd af stöðu mála hér og hættu á að veiran muni blossa aftur upp í framtíðinni.


Hér fer á eftir tilkynning Íslenskrar erfðagreiningar um rannsóknina:

„Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar og samstarfsfólk þeirra hjá Landlæknisembættinu og Landspítala háskólasjúkrahúsi hafa birt grein í New England Journal of Medicine, sem byggir á rannsókn á útbreiðslu SARS- Cov-2 veirunnar á Íslandi sem veldur sjúkdómnum COVID-19.

Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka á breiðum grundvelli hvernig veiran breiðist út í samfélaginu, í þessu tilfelli hjá 360 þúsund manna þjóð sem bregst snemma við, ræðst í víðtæka skimun meðal almennings og beitir sóttkví og einangrun smitaðra til að draga út vexti faraldursins.

Niðurstöðurnar sýna að 0,8 prósent fólks í samfélaginu er smitað sem ýtir undir kenningar um að einkennalausir geti verið smitberar.

Þá telja greinarhöfundar að þótt aðgerðir heilbrigðisyfirvalda, til að halda faraldrinum niðri hafi borið árangur, sé þörf á meiri gögnum, til að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um hvernig eigi að koma böndum á veiruna  í framhaldinu.

„Víðtæk skimun eftir veirunni í íslensku samfélagi og ráðstafanir Landlæknisembættisins til þess að hamla útbreiðslu hennar hafa nú fært heiminum býsna gott dæmi um hvernig megi takast á við þennan illviga faraldur,” segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og einn höfunda greinarinnar.

Það var 13. mars sem farið var að skima eftir veirunni hjá fólki, á öllum aldri, sem sjálfviljugt skráði sig í sýnatöku. 31, mars var búið að rannsaka sýni úr 10797 einstaklingum og 87 þeirra reyndust vera smitaðir. Í framhaldinu var farin sú leið að bjóða 2283 einstaklingum sem voru valdir af handahófi að koma í sýnatöku en niðurstöðurnar voru mjög svipaðar.

Íslensk erfðagreining raðgreindi ennfremur jákvæð sýni úr 643 einstaklingum sem höfðu greinst fyrir 19. mars.  Raðgreiningarnar og sú staðreynd að flest ný smit greinast hjá fólki í sóttkví gera það einnig kleift að skoða tengsl smitleiða og smitaðra og gögnin leiða í ljós að aðgerðir heilbrigðisyfirvalda, bæði rakning smitleiða, sóttkví og einangrun bera árangur við að halda faraldrinum í skefjum.

Teiknað var upp ættartré mismunandi stökkbreytinga í erfðamengi veirunnar en sýni úr þeim sem fyrst greindust jákvæðir sýndu þannig fram á að smitið átti rætur að rekja til Ítalíu og Austurríkis og barst hingað með fólki sem var að snúa aftur úr skíðafríi. Eftir því sem leið á tímabilið fundust fleiri sýni sem var hægt að rekja til annarra landa, líka þeirra sem voru ekki talin áhættusvæði af heilbrigðisyfirvöldum. 130 stökkbreytingar sem fundust hafa ekki fundist annars staðar en á Íslandi.“