Samkvæmt viðbragðsáætlun Almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra og Landlæknis vegna heimsfaraldurs, sem hefur nú verið uppfærð vegna Kórónaveirunnar, er gert ráð fyrir ráðstöfunum til að tryggja aðgengi fólks að matvælum.
Þar eru jafnframt birtir listar yfir æskilegt birgðahald heimila í heimsfaraldri. Hefur Landlæknir vísað til umræddra lista á blaðamannafundum nýverið, svo gera má því skóna að skynsamlegt sé fyrir landsmenn að versla inn til heimilisins með tilliti til þessa.
Í öllum tilfellum er gert ráð fyrir rafmagni og rennandi vatni.
Ungbörn, 0–1 árs
Nauðsynlegt er að taka sérstakt tillit til barna á fyrsta aldursári ef þau eru á heimilinu, sérstaklega þeirra barna sem ekki eru á brjósti. Fyrir börn yngri en fjögurra mánaða sem ekki eru á brjósti þarf eingöngu að gera ráð fyrir ungbarnamjólk (þurrmjólk eða tilbúin blanda).
Fyrir 4–6 mánaða börn sem ekki eru á brjósti getur þurft til viðbótar við ungbarnamjólk að gera ráð fyrir ungbarnagraut og e.t.v. ungbarnamauki á krukku (ávaxta- og grænmetismauk), allt eftir þörfum barnsins. Gert er ráð fyrir krukkumat við þessar aðstæður. Það getur einnig dugað fyrir 6–9 mánaða gamalt barn nema þá bætast við til viðbótar við ávaxta- og grænmetismauk fleiri tegundir af mauki t.d. kjöt og fiskur og í meira
magni.




