Þetta er svigrúmið, það verður ekki farið í hátekjuskatt

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist telja að tillögur ríkisstjórnarinnar í skattamálum geti skipt verulegu máli fyrir allan almenning, enda þótt þær hafi fengið dræm viðbrögð hjá verkalýðsforystunni í gær.

Forsætisráðherra sagði í morgunþætti RÚV í morgun, að ríkisstjórnin hafi alltaf sagt að svigrúmið til skattkerfisbreytinga gagnvart aðilum á vinnumarkaði kæmi fram í fjármálaáætlun sem lögð hefði verið fram fyrir um ári síðan og það standi. Þetta sé það svigrúm sem hægt sé að vinna með og aldrei hafi staðið til að setja á hátekjuskatt.

Hún segir að um sé að ræða risavaxna innspýtingu upp á 30 milljarða á þremur árum. Átak sé gert í húsnæðismálum, skattkerfið lagfært og gert réttlátara, fæðingarorlof lengt í 12 mánuði og margt fleira, til dæmis standi til að draga úr áhrifum verðtryggingar.

Það var þungt hljóðið í formönnum landssambanda og stærstu félaga innan Alþýðusambandsins eftir fund í gær þar sem forseti ASÍ, Drífa Snædal, kynnti hugmyndir ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir gerð kjarasamninga.

Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Forsetateymi ASÍ, Drífa auk Vilhjálms Birgissonar og Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, átti í gærmorgun fund með formönnum stjórnarflokkana auk félagsmálaráðherra þar sem farið var yfir mögulegt innlegg ríkisstjórnarinnar.

Drífa Snædal forseti ASÍ lýsti deginum svona á Facebook síðu sinni:

„Dagur vonbrigða í dag þegar við fengum kynningu á skattatillögum stjórnvalda.

  1. Skattalækkun upp allann stigann (enginn að kalla eftir skattalækkun á hæstu tekjuhópana).
  2. Sennilega frysting persónuafsláttar í nokkur ár (raunlækkun persónuafsláttar).
  3. Ekkert meira inn í barnabóta- og húsnæðiskerfin en komið er (Fjármagn í barnabætur hafa ekki náð raungildi ársins 2010).
  4. Enginn hátekjuskattur eða hækkun á auðlindagjöldum og fjármagnstekjuskatti (Tekjuöflun engin).
  5. Skattalækkun á þá hópa sem enn ná ekki endum saman dugar varla fyrir einni ferð í Bónus og sú lækkun á að koma einhverntíman á næstu þremur árum.

Niðurstaðan: Þetta verður ekki til að liðka fyrir kjarasamningum.“