„Þetta var einbeittur brotavilji“

„Þetta var einbeittur brotavilji“, sagði Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna á fundi borgarstjórnar sem nú fer fram í Ráðhúsinu, en heitar umræður fara þar fram um tillögu Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins um að sveitarstjórnarráðuneytinu verði falið að skoða aðgerðir Reykjavíkurborgar í tengslum við kosningaþátttöku tiltekinna hópa, sem framkvæmdar voru fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í fyrra.

Hann segir málið sérstaklega alvarlegt, þar sem að  framkvæmdaaðili sveitarstjórnarkosninganna síðustu, Reykjavíkurborg, sé: „sá aðili sem við treystum fyrir lýðræðinu.“

Eyþór talaði um hylmingu þar sem synjun Póst- og fjarskiptastofnunar um undanþágu frá lögum um bann við skeytasendingunum hafi ekki verið kynnt fyrir borgarráði. Eins hafi bókanir fulltrúa minnihlutans verið færðar í trúnaðarbók framyfir kosningar.

„Trúnaðarbók er til að verja persónulega hagsmuni, en hér var farið gegn lýðræðinu og persónulegum hagsmunum fólks,“ og krafðist svara um það með hvaða rökum bókanirnar, sem innihéldu alvarlegar athugasemdir við verkefnið, hefðu verið settar þangað inn.

Vill Post mortem úttekt

Hvatti Eyþór í ræðu sinni borgarfulltrúa í salnum því til að láta gera „Post Mortem“- úttekt á verkefninu í samræmi við tillöguna sem var til umræðu.

Hann sakaði Reykjavíkurborg um að hafa leynt upplýsingum, brotið lög, afvegaleitt kjörna fulltrúa og misnotað trúnaðarbók, ásamt því að reyna að draga Háskóla Íslands o.fl. með sér „niður á sakamannabekkinn.“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, svaraði því til að Póst- og fjarskiptastofnun hafi sagt að hún hefði ekki lagaheimild til að veita slíka undanþágu, og vísað á Persónuvernd, í bréfi frá 3. maí 2018. Dagur sagði að Reykjavíkurborg hefði talið sig hafa fengið svör frá Persónuvernd, 14. maí 2018, um að framkvæmdin væri ekki leyfisskyld.

„Enginn sækir um undanþágu frá lögum nema hann viti að það sem hann ætlast fyrir sé bannað,“ sagði Eyþór þá og benti á að Póst- og fjarskiptastofnun hafi í svari sínu 3. maí 2018 til Reykjavíkurborgar, boðið aðstoð sína fram, en hafi engin svör fengið frá Reykjavíkurborg innan þess frests sem var gefinn, og gaf því út ákvörðun um synjun sem var send Reykjavíkurborg samdægurs, þann 8. maí 2018.

„Rannsókn Háskóla Íslans fór aldrei fram. Hvar er rannsóknin? Hversvegna var hún aldrei gerð? Var hún yfirvarp?“

Að lokum vildi Eyþór benda á að hinn einbeitta brotavilja borgarinnar í málinu mætti meðal annars sjá þegar að viðvaranir þriggja eftirlitsstofnana, dómsmálaráðuneytisins, Póst- og fjarskiptastofnunar og Persónuverndar hafi verið virtar að vettugi, ásamt því að „Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið kviksettur í trúnaðarbók,“ og vísaði þar til bókana fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Kjartans Magnússonar, sem voru færðar í trúnaðarbók framyfir kosningar.