Þing kemur saman eftir jólahlé: Formenn ræða stöðuna í upphafi árs

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Alþingi kemur saman á ný til funda eftir jólahlé í dag, mánudaginn 20. janúar kl. 3 síðdegis. Í upphafi fundar mun forsætisráðherra lesa forsetabréf um framhaldsfundi Alþingis. Síðan mun forseti Alþingis fresta þingfundi til kl. 4.

Þegar þingfundur hefst að nýju kl. 4 verður í upphafi minnst látins alþingismanns. Að venju verður gert nokkurra mínútna hlé að loknum lestri minningarorða. Þá les forseti tilkynningar og síðan hefst umræða um stöðuna í stjórnmálum í byrjun árs og verkefnin framundan, að því er fram kemur í tilkynningu frá Alþingi.

Til máls taka formenn stjórnmálaflokkanna eða staðgenglar þeirra og er ræðutími 10 mínútur. Andsvör eru leyfð og réttur rýmkaður þannig að einn frá hverjum stjórnarandstöðuflokki getur veitt andsvar við ræður formanna stjórnarflokkanna.

Röð flokkanna í umræðunni verður eftirfarandi: Vinstrihreyfingin – grænt framboð, Miðflokkurinn, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur, Píratar, Framsóknarflokkur, Viðreisn, Flokkur fólksins og þingmaður utan flokka.