Óhætt er að segja að skýrt hafi komið fram í máli Orra Páls Jóhannssonar, þingflokksformanns Vinstri grænna í dag, hvers vegna allt er stopp í orkumálum í núverandi stjórnarsamstarfi. Á dögunum lýsti Jón Gunnarsson, fv. ráðherra, því að hann treysti ekki núverandi ríkisstjórn til að koma orkumálum aftur af stað, svo ekki skapist neyðarástand.
Í umræðum um orkumál lagði Orri Páll áherslu á náttúruvernd þegar kemur að þessum málaflokki:
„Við erum rík af þessum gæðum og þar þarf að gæta jafnvægis,“ sagði þingflokksformaðurinn og benti á að rammaáætlun fæli í sér svokallaða verndar- og orkunýtingaráætlun og hann vildi leggja áherslu á verndarþáttinn.
„Það er akkúrat hinn helmingurinn af löggjöfinni, að horfa til verndar annars vegar og nýtingar hins vegar. Hér höfum við sammælst um að leggja áherslu á að tryggja að orkan gangi upp í það að mæta okkar skuldbindingum í þágu loftslagsmála. Þá skulum við heldur ekki gleyma því að ástæðan fyrir því að þjóðir heims eru komnar á þennan stað sem þær eru á er vegna þess hvernig þær hafa gengið gegndarlaust á gæðin. Það getur því ekki verið lógískt í öllu samhengi að ganga bara áfram gegndarlaust á gæðin án þess að við tryggjum að gæta einhvers jafnvægis í upplegginu.
Ég minni þess vegna á mikilvægi verndarþáttarins í þessu samhengi. Þar er ágætt að minna á, og ég nota hvert einasta tækifæri í þessari umræðu til að minna á það, að á Íslandi eru síðustu 43% af ósnortnum víðernum allrar Evrópu. Það eru nú aldeilis gæði. Við þurfum að horfa til verndar heilla vatnasviða, m.a. til að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika og gæta þess að ganga ekki svo gegndarlaust á hann að við getum ekki endurheimt hann aftur. Það er atriði sem þarf líka að horfa til þegar við ætlum okkur að fara að nýta náttúruna hér eins og við höfum verið að gera,“ sagði hann.