„Bann við innflutningi hrás kjöts og sóttvarnir landsins snúast um sérstöðu Íslands til framtíðar. Framtíðarhagsmunir íslensks samfélags eru undir,“ segir Líneik Anna Sævarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, um frumvarp landbúnaðarráðherra um að leyfa innflutning á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum.
Hún segir þessa hagsmuni miklu stærri, en hagsmuni einstakra stétta í nútíðinni.
„Samningar og lög eru mannanna verk sem hægt er að breyta.
Frumvarp um heimild til innflutnings á hráu ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum eggjum, hefur hvorki verið lagt fyrir ríkisstjórn eða stjórnarflokka. Það er enn í vinnslu hjá ráðuneyti,“ segir Líneik Anna.
„Frumvarpið gerir ráð fyrir að horfið verði frá landamæraeftirliti sem á sér stað áður en vara kemur á markað – yfir í eftirlit sem á sér stað eftir að vara er komin inn í landið, auk annars sem ekki gengur upp,“ bætir hún við og segist andsnúin frumvarpinu eins og það hefur verið kynnt.