Þingmaður Pírata barðist fyrir siðanefnd en hafnar svo áliti hennar

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata ræðir við Loga Einarsson formann Samfylkingarinnar. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sem hefur margoft í ræðu og ritið barist fyrir siðareglum fyrir alþingismenn og siðanefnd þingsins, hafnar nýju áliti siðanefndar Alþingis. Ástæðan er sú að siðanefndin og forsætisnefnd þingsins telur hana gerst brotlega við siðareglur þingsins með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og akstursgreiðslur hans.

Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun tjáði Þórhildur Sunna sig í fyrsta sinn um málið og sagði að með álitinu væri vegið að tjáningarfrelsi þingmanna. Alþingi hafi sett niður í málinu og forsætisnefnd þingsins sé gjörspillt.

Hún vísaði til þess að máli Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, hafi verið vísað frá og forsætisnefnd hafi klúðrað málsmeðferð „að öllu leyti“ í Klaustursmálinu. 

Þórhildur Sunna kvaðst hafna áliti siðanefndar og forsætisnefndar Alþingis og sagði forsætisnefnd gjörspillta á „samtryggingu karlaklíkunnar sem neitar að taka afstöðu til nokkurs nema framkomu ungrar konu í stjórnarandstöðu sem móðgaði miðaldra karl.”