Þingmaður segir ranglega að Kórónaveiran sé í rénun: Metfjöldi látinna í gær

Smári McCarthy, þingmaður Pírata.

„Nú neyðist ég til að skrifa nokkur orð um kórónaveiru, 5G, tollastríð og mannréttindi ─ og nýju Rauðu Ógnina. Þetta tengist nefnilega allt á frekar lúmskan hátt. Það hefur nefnilega borið á því undanfarið að Kínaógnin sé spiluð býsna sterkt af vesturlöndum, og er þetta að hafa áhrif bæði á umræðu um viðskipti, tækni og almannaheilsu.“

Þetta skrifaði Smári McCarthy, þingmaður Pírata, í færslu á fésbókina fyrir helgi, þar sem hann fullyrti að kórónaveiran væri í rénun. Birti hann graf því til staðfestingar.

Hvorki opinber gögn kínverskra stjórnvalda né Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) renna stoðum undir fullyrðingu þingmannsins. Hvað þá yfirlýsingar alþjóðlegra sérfræðinga í smitsjúkdómum, sem fært hafa rök fyrir því að tala smitaðra sé miklu hærri en Kínverjar vilji viðurkenna.

Samkvæmt opinberum tölum létust yfir hundrað manns af völdum veirunnar sl. sólarhring og hafa þeir aldrei verið fleiri á einum degi frá því veiran uppgötvaðist. Er fjöldi látinna nú komin yfir eitt þúsund og ríflega tvö þúsund og fimm hundruð ný tilfelli skrásett frá því í gær.

„Það er algjörlega ljóst að Kína er ekki lýðræðisríki í neinum þeim skilningi sem við leggjum í það orð, og sé stórtækt í mannréttindabrotum t.d. gagnvart Uyghur fólki og Tíbetbúum, en líka almennt og víðar. En mér finnst engu að síður lykta örlítið af blöndu hræsni og fordómum að láta eins og Kína sé áberandi verra en til dæmis Bandaríkin, og ekki síst þegar kynnt er undir þá fóbíu með misvísandi áróðri,“ sagði Smári ennfremur og sagði flest benda til að heilbrigðisyfirvöldum bæði í Kína og á heimsvísu væri að takast, að því er virðist, að stöðva útbreiðslu veirunnar.