Þingmaður Sjálfstæðisflokks sakar ráðherra um lögbrot og siðleysi

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokkisns.

„Ég get ekki lengur orða bundist yfir framgöngu umhverfisráðherra. Hann fer um landið með friðlýsingasprotann í skjóli nætur og friðlýsir út og suður, án alls samráðs og faglegs undirbúnings. Þetta á bæði við um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs og friðlýsingar á grundvelli rammaáætlunar. Þar sem er ekki hjá því komist að ræða við sveitastjórnir býður hann framtíðarstörf landvarða heima í héraði til frambúðar nokkrum dögum fyrir kosningar. Hann hefur ekkert fjárveitingarvald né löggjafarvald, en umhverfisráðherra er ekki einu sinni kjörinn alþingismaður.“

Þetta segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í færslu á fésbókinni í kvöld þar sem hann vandar umhverfisráðherra samstarfsflokksins í ríkisstjórn ekki kveðjurnar.

„Það stenst engin lög að friðlýsa heilu vatnasviðin á grundvelli rammaáætlunar. Alþingi þarf að skilgreina þau svæði nákvæmlega sem á að friðlýsa skv. rammaáætlun og það hefur ekki verið gert. Þess ber að geta að vegna friðlýsingar á Jökulsá á Fjöllum er dómsmál í gangi út af þessum ólöglega gjörningi. Þá hafa sveitastjórnarfulltrúar í Bláskógabyggð og víðar mótmælt því harðlega að heilu vatnasviðin séu friðlýst í stað einungis hvers virkjanakosts fyrir sig.

Þá er ólöglegt að stækka Vatnajökulsþjóðgarð án alls samráðs við sveitastjórnir í nágrenninu, eðlilegs undirbúnings innan stjórnsýslunnar með kostnaðarmati, hnitsettum kortum og að ég tali nú ekki um að klára frágang og fjármögnun á fyrri stækkunum. Það er óeðlilegt að hægt sé að gera svæði að þjóðgarði með reglugerðarbreytingu en friðlýsing skv. náttúruverndarlögum þarf að fara í ítarlega stjórnsýslumeðferð.
Þetta eru ekki vinnubrögð sem hægt er að bjóða almenningi uppá með okkar mikilvæga land. Þarna er alveg skautað fram hjá lýðræðinu og almennum mannasiðum í samskiptum og samstarfi,“ segir þingmaðurinn ennfremur.