Þingmenn fái að sjá samninga sem gerðir hafa verið um kaup á bóluefnum

Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður og fv. utanríkisráðherra.

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Miðflokksins, hefur komið þeirri beiðni til forseta Alþingis, að heilbrigðisráðherra afhendi þingmönnum nú þegar afrit af samningum þeim sem íslensk stjórnvöld hafa gert við lyfjafyrirtæki um kaup á bóluefnum.

Þetta kemur fram í orðsendingu sem Gunnari Bragi sendi á forseta Alþingis í gær með afriti á formenn þingflokka annarra flokka. Áður hafði hann óskað eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðherra um stöðu samninga um bóluefni, áætlanir um bólusetningar og fleira sem þessu tengist.

Miðflokkurinn fór á dögunum fram á að þing kæmi saman milli jóla og nýárs vegna þeirrar stöðu sem komin er upp varðandi bólusetningar gegn COVID-19, en við því var ekki orðið.