Þingmenn Sjálfstæðisflokks funda vítt og breitt um landið

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sigríður Á. Andersen fv. dómsmálaráðherra.

„Já, fundarferð þingflokksins stendur yfir frá síðasta laugardegi til hins næsta,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins í samtali við Viljann, en þingmenn flokksins ferðast nú vítt og breitt um landið í aðdraganda haustþings og ræða við kjósendur.

„Við skiptum okkur upp og höldum opna fundi á 15 stöðum um landið. Sjálf fer ég á átta staði og þrír fundir afstaðnir, allir gengið afar vel, verið fjölmennir og fjölbreyttar umræður myndast,“ bætir Áslaug Arna við.

Fundaherferð þingflokksins hófst í Valhöll sl. laugardag, eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Auk þess hefur þegar verið fundað á Akranesi, Ísafirði og Blönduósi og í dag fundar þingflokkurinn á Blönduósi, á Sauðárkróki og á Reyðarfirði.

Fjölmennt var á fundi sjálfstæðismanna á Ísafirði.

Á morgun, fimmtudaginn 15. ágúst, fundar þingflokkurinn á Egilsstöðum, á Húsavík, á Akureyri, á Grundarfirði, á Höfn og á Hellu.

Laugardaginn 17. ágúst fundar þingflokkurinn í Reykjanesbæ, í Hafnarfirði og á Selfossi.