Hópur fólks undirbýr þessa dagana að mótmæla innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins, sem til stendur að Alþingi fái til meðferðar á næstu dögum. Hópurinn ætlar að vinna undir kjörorðunum „Orkan okkar“ og hafa samtök með því heiti þegar verið stofnuð.
Þetta kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur iðnaðarráðherra á ársfundi Landsvirkjunar í dag. Sagðist hún hafa heyrt frá þessum samtökum.
Iðnaðarráðherra staðfesti á fundinum að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra muni á næstu dögum leggja fram tillögu til þingsályktunar um orkupakkann sem aflétti stjórnskipulegum fyrirvara. Í kjölfarið muni hún leggja fram lagafrumvarp um innleiðingu þriðja orkupakkans og vonist til að það fáist samþykkt fyrir þinglok.
Misskilningur að vatnsafl og jarðvarmi séu þjóðareign
Þórdís fjallaði um eignarrétt á orkuauðlindinni og sagði það misskilning að vatnsafl og jarðvarmi væru þjóðareign, líkt og fiskurinn í sjónum. Vatnsafl og jarðvarmi tilheyrðu eignarrétti á landi, eins og laxveiðiréttindi tilheyrðu jörðum og væru því oft í einkaeigu.
Hún lýsti yfir eindregnum stuðningi við áform um þjóðarsjóð sem byggður væri upp með arði af náttúruauðlindum þjóðarinnar og lýsti um leið áhyggjum af sóun sem fælist í einangrun orkukerfisins. Það leiddi af sér að tvær teravattstundir færu til spillis á ári hverju og mætti hreinlega líkja við brottkast í sjávarútvegi.
Miðað við að þrjú þúsund krónur fengjust fyrir hverja megavattstund á markaði næmi þessi sóun um sex milljörðum króna í meðalári.