Eftir að samkomulag náðist á Alþingi um að fresta afgreiðslu orkupakka 3 frá ESB þar til síðla sumars vaknar spurningin: Hvað næst?
Þetta skrifar Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, í vikulegum pistli sínum í Morgunblaðinu í dag. Hann segir ljóst að þessi frestun hefði ekki náðst fram nema vegna málþófs Miðflokksins. Flestir flokkar hafi tekið þátt í slíku málþófi og þess vegna sé holur hljómur í gagnrýni hinna sömu á þá Miðflokksmenn. Auk þess séu slíkar aðgerðir þekktar á öðrum þjóðþingum og þess vegna ekkert sérstakt við þær.
„Þessi frestun opnar hins vegar tækifæri til samtala innan flokka, þar sem mikill ágreiningur er um málið. Það á ekki sízt við um stjórnarflokkana þrjá.
Eðlilegt er að kjörnir trúnaðarmenn flokkanna hafi frumkvæði að slíkum samtölum. Næstu vikur leiða í ljós, í hvaða hugarástandi þeir eru, eftir orrahríð undanfarinna vikna. Augljós leið út úr þessum ógöngum er auðvitað að leggja málið í þjóðaratkvæði. Hafi þeir hins vegar ekki frumkvæði að slíkum samtölum er ljóst að þeir ætla að afgreiða málið hvað sem tautar í byrjun september.
Og hvað þá?
Sjálfsagt verður það mismunandi eftir flokkum. Að því er Sjálfstæðisflokkinn varðar er líklegt að slík afgreiðsla mundi þýða uppgjör á landsfundi. Harkaleg deilumál hafa áður komið til umræðu og uppgjörs á landsfundi eins og t.d. stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens snemma árs 1980. Um þær deilur fóru fram hreinskiptnar umræður fyrir opnum tjöldum á næsta landsfundi á eftir.
Í ljósi þess, hvað andstaðan gegn orkupakkanum hefur verið sterk innan flokksfélaganna í Reykjavík má ætla að virkir félagar í þeim muni láta til sín heyra á landsfundi. Til hvers slíkar umræður mundu leiða getur enginn sagt, en vonandi og væntanlega verða engar tilraunir gerðar til þess að koma í veg fyrir að þær umræður fari fram.
Framsóknarflokkur í lífshættu
Annar kapítuli í slíkri sögu gæti svo orðið í prófkjörum vegna næstu þingkosninga. Ekki er hægt að útiloka, að afstaða frambjóðenda í þeim prófkjörum, sem nú sitja á þingi, til þessa máls nú, geti ráðið úrslitum um atkvæði eða ekki atkvæði í prófkjörum.
Vel má vera að aðstæður séu aðrar innan Framsóknarflokksins en alla vega er ljóst að taki flokkurinn þátt í að keyra orkupakkann í gegn eftir nokkurra vikna hlé í sumar, mun flokkurinn berjast fyrir lífi sínu í næstu þingkosningum og nánast óskiljanlegt að flokksforystan hafi ákveðið að taka þá áhættu.
Fólk þarf ekki annað en skoða sundurgreiningu á könnun Maskínu fyrir Heimssýn á dögunum til þess að sjá í hvaða lífshættu Framsóknarflokkurinn er, þegar flokksforystan gengur með þessum hætti þvert á vilja yfirgnæfandi meirihluta flokksmanna.
Vinstri grænir eru annað mál enda eru víglínurnar, sem einu sinni voru innan þess flokks gagnvart aðild Íslands að ESB vart sjáanlegar lengur.
Eitt meginþema hefur einkennt málflutning þeirra, sem sjá ekkert athugavert við það að orka fallvatnanna á Íslandi, ein helzta auðlind okkar, verði innlimuð í regluverk ESB sem mundi gerast með lagningu sæstrengs til aðildarríkis ESB frá Íslandi. Það þema er að andstæðingar slíks séu „einangrunarsinnar“ og þar að auki „gamlir“.
Enduróm af þessu þema mátti heyra í ræðu forsætisráðherra á Austurvelli 17. júní sl.
Og af þessu tilefni skal endurteklð einu sinni enn: Þeir sem nú eru kallaðir „einangrunarsinnar“ eru þeir hinir sömu, sem í 60 til 70 ár hafa barizt fyrir þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Þeir tóku þátt í baráttunni fyrir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu 1949 og í marga áratugi þar á eftir. Þeir tóku þátt í baráttunni fyrir varnarsamstarfi við Bandaríkin. Þeir tóku þátt í baráttunni fyrir því að erlendir fjárfestar kæmu að uppbyggingu stóriðju á Íslandi. Þeir tóku þátt í því að leiða Ísland inn í EFTA og þeir tóku þátt í því að EES-samningurinn var gerður.
Þeir sem nú berja sér á brjóst og kalla aðra einangrunarsinna eru pólitískir arftakar þeirra, sem efndu til óeirða á Austurvelli 30. marz 1949, þeirra, sem börðust gegn varmnarsamstarfi við Bandaríkin alla tíð. Þeir hinir sömu lögðust gegn byggingu álversins í Straumsvík og aðild að EFTA svo og gegn EES-samningnum.
Verkin tala sínu máli.
En auðvitað er gott að vita af því að Vinstri grænir hafa nú snúizt gegn afstöðu forvera þeirra í Alþýðubandalagi og Sameiningarflokki alþýðu – Sósíalistaflokki.
Það er hins vegar visst umhugsunarefni að það má sjá nýjar átakalínur í íslenzkum stjórnmálum sem eru að mótast á milli þeirra, sem vilja halda fast við sjálfstæði og fullveldi Íslands og hinna, sem vilja gefast upp við það að vera sjálfstæð þjóð og vilja fremur leita skjóls í faðmi gamalla nýlenduvelda í Evrópu, sem eiga sér slíka sögu að hún þolir vart dagsins ljós. Raunar eru nýlenduveldin í ESB að sýna um þessar mundir að þau hafa ekkert lært og engu gleymt. Slík er meðferð þeirra á Grikkjum og minnir á meðferð þeirra á þjóðum bæði í Asíu og Afríku á árum áður.
Um leið er athyglisvert að sjá þá breiðfylkingu, sem eru að myndast gegn slíkri uppgjöf. Þar er á ferð fólk úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Alþýðuflokki, VG, Miðflokki, Flokki fólksins, frá Pírötum.
Úrtölumennirnir munu mæta óvígum her.
Það er auðvitað ljóst að betri kostur er fyrir þjóðina, að hún taki sjálf ákvörðun um þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Styrmir Gunnarsson.