Þjóðaratkvæði er augljós leið út úr ógöngum varðandi þriðja orkupakkann

Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri.

Eft­ir að sam­komu­lag náðist á Alþingi um að fresta af­greiðslu orkupakka 3 frá ESB þar til síðla sum­ars vakn­ar spurn­ing­in: Hvað næst?

Þetta skrifar Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, í vikulegum pistli sínum í Morgunblaðinu í dag. Hann segir ljóst að þessi frest­un hefði ekki náðst fram nema vegna málþófs Miðflokks­ins. Flest­ir flokk­ar hafi tekið þátt í slíku málþófi og þess vegna sé hol­ur hljóm­ur í gagn­rýni hinna sömu á þá Miðflokks­menn. Auk þess séu slík­ar aðgerðir þekkt­ar á öðrum þjóðþing­um og þess vegna ekk­ert sér­stakt við þær.

„Þessi frest­un opn­ar hins veg­ar tæki­færi til sam­tala inn­an flokka, þar sem mik­ill ágrein­ing­ur er um málið. Það á ekki sízt við um stjórn­ar­flokk­ana þrjá.

Eðli­legt er að kjörn­ir trúnaðar­menn flokk­anna hafi frum­kvæði að slík­um sam­töl­um. Næstu vik­ur leiða í ljós, í hvaða hug­ar­ástandi þeir eru, eft­ir orra­hríð und­an­far­inna vikna. Aug­ljós leið út úr þess­um ógöng­um er auðvitað að leggja málið í þjóðar­at­kvæði. Hafi þeir hins veg­ar ekki frum­kvæði að slík­um sam­töl­um er ljóst að þeir ætla að af­greiða málið hvað sem taut­ar í byrj­un sept­em­ber.

Og hvað þá?

Sjálfsagt verður það mis­mun­andi eft­ir flokk­um. Að því er Sjálf­stæðis­flokk­inn varðar er lík­legt að slík af­greiðsla mundi þýða upp­gjör á lands­fundi. Harka­leg deilu­mál hafa áður komið til umræðu og upp­gjörs á lands­fundi eins og t.d. stjórn­ar­mynd­un Gunn­ars Thorodd­sens snemma árs 1980. Um þær deil­ur fóru fram hrein­skiptn­ar umræður fyr­ir opn­um tjöld­um á næsta lands­fundi á eft­ir.

Í ljósi þess, hvað andstaðan gegn orkupakk­an­um hef­ur verið sterk inn­an flokks­fé­lag­anna í Reykja­vík má ætla að virk­ir fé­lag­ar í þeim muni láta til sín heyra á lands­fundi. Til hvers slík­ar umræður mundu leiða get­ur eng­inn sagt, en von­andi og vænt­an­lega verða eng­ar til­raun­ir gerðar til þess að koma í veg fyr­ir að þær umræður fari fram. 

Framsóknarflokkur í lífshættu

Ann­ar kapí­tuli í slíkri sögu gæti svo orðið í próf­kjör­um vegna næstu þing­kosn­inga. Ekki er hægt að úti­loka, að afstaða fram­bjóðenda í þeim próf­kjör­um, sem nú sitja á þingi, til þessa máls nú, geti ráðið úr­slit­um um at­kvæði eða ekki at­kvæði í próf­kjör­um.

Vel má vera að aðstæður séu aðrar inn­an Fram­sókn­ar­flokks­ins en alla vega er ljóst að taki flokk­ur­inn þátt í að keyra orkupakk­ann í gegn eft­ir nokk­urra vikna hlé í sum­ar, mun flokk­ur­inn berj­ast fyr­ir lífi sínu í næstu þing­kosn­ing­um og nán­ast óskilj­an­legt að flokks­for­yst­an hafi ákveðið að taka þá áhættu.

Fólk þarf ekki annað en skoða sund­ur­grein­ingu á könn­un Maskínu fyr­ir Heims­sýn á dög­un­um til þess að sjá í hvaða lífs­hættu Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er, þegar flokks­for­yst­an geng­ur með þess­um hætti þvert á vilja yf­ir­gnæf­andi meiri­hluta flokks­manna.

Vinstri græn­ir eru annað mál enda eru víg­lín­urn­ar, sem einu sinni voru inn­an þess flokks gagn­vart aðild Íslands að ESB vart sjá­an­leg­ar leng­ur.

Eitt meg­inþema hef­ur ein­kennt mál­flutn­ing þeirra, sem sjá ekk­ert at­huga­vert við það að orka fall­vatn­anna á Íslandi, ein helzta auðlind okk­ar, verði inn­limuð í reglu­verk ESB sem mundi ger­ast með lagn­ingu sæ­strengs til aðild­ar­rík­is ESB frá Íslandi. Það þema er að and­stæðing­ar slíks séu „ein­angr­un­ar­sinn­ar“ og þar að auki „gaml­ir“.

Enduróm af þessu þema mátti heyra í ræðu for­sæt­is­ráðherra á Aust­ur­velli 17. júní sl.

Og af þessu til­efni skal end­ur­teklð einu sinni enn: Þeir sem nú eru kallaðir „ein­angr­un­ar­sinn­ar“ eru þeir hinir sömu, sem í 60 til 70 ár hafa barizt fyr­ir þátt­töku Íslands í alþjóðlegu sam­starfi. Þeir tóku þátt í bar­átt­unni fyr­ir aðild Íslands að Atlants­hafs­banda­lag­inu 1949 og í marga ára­tugi þar á eft­ir. Þeir tóku þátt í bar­átt­unni fyr­ir varn­ar­sam­starfi við Banda­rík­in. Þeir tóku þátt í bar­átt­unni fyr­ir því að er­lend­ir fjár­fest­ar kæmu að upp­bygg­ingu stóriðju á Íslandi. Þeir tóku þátt í því að leiða Ísland inn í EFTA og þeir tóku þátt í því að EES-samn­ing­ur­inn var gerður.

Þeir sem nú berja sér á brjóst og kalla aðra ein­angr­un­ar­sinna eru póli­tísk­ir arf­tak­ar þeirra, sem efndu til óeirða á Aust­ur­velli 30. marz 1949, þeirra, sem börðust gegn varmn­ar­sam­starfi við Banda­rík­in alla tíð. Þeir hinir sömu lögðust gegn bygg­ingu ál­vers­ins í Straums­vík og aðild að EFTA svo og gegn EES-samn­ingn­um.

Verk­in tala sínu máli. 

En auðvitað er gott að vita af því að Vinstri græn­ir hafa nú snú­izt gegn af­stöðu for­vera þeirra í Alþýðubanda­lagi og Sam­ein­ing­ar­flokki alþýðu – Sósí­al­ista­flokki.

Það er hins veg­ar visst um­hugs­un­ar­efni að það má sjá nýj­ar átakalín­ur í ís­lenzk­um stjórn­mál­um sem eru að mót­ast á milli þeirra, sem vilja halda fast við sjálf­stæði og full­veldi Íslands og hinna, sem vilja gef­ast upp við það að vera sjálf­stæð þjóð og vilja frem­ur leita skjóls í faðmi gam­alla ný­lendu­velda í Evr­ópu, sem eiga sér slíka sögu að hún þolir vart dags­ins ljós. Raun­ar eru ný­lendu­veld­in í ESB að sýna um þess­ar mund­ir að þau hafa ekk­ert lært og engu gleymt. Slík er meðferð þeirra á Grikkj­um og minn­ir á meðferð þeirra á þjóðum bæði í Asíu og Afr­íku á árum áður.

Um leið er at­hygl­is­vert að sjá þá breiðfylk­ingu, sem eru að mynd­ast gegn slíkri upp­gjöf. Þar er á ferð fólk úr Sjálf­stæðis­flokki, Fram­sókn­ar­flokki, Alþýðuflokki, VG, Miðflokki, Flokki fólks­ins, frá Pír­öt­um.

Úrtölu­menn­irn­ir munu mæta óvíg­um her. 

Það er auðvitað ljóst að betri kost­ur er fyr­ir þjóðina, að hún taki sjálf ákvörðun um þetta mál í þjóðar­at­kvæðagreiðslu,“ segir Styrmir Gunnarsson.