Ekki stóðu deilur lengi um réttmæti þeirrar ákvörðunar að rýma Grindavík frá og með næstkomandi mánudagskvöldi, því bærinn var rýmdur í skyndingu í nótt vegna yfirvofandi eldgosahættu og gekk sú aðgerð giftursamlega. Nokkrum klukkustundum síðar opnaðist sprunga rétt ofan í byggðinni og er óhætt að segja að þjóðin fylgist agndofa í beinni útsendingu með þeim hamförum sem eiga sér stað.
Efsta gatan í Grindavík er fyrst undir í þessu sjónarspili. Hún heitir Efrahóp og þar hafa á undanförnum árum verið byggð myndarleg einbýlishús. Á vefmyndavélum má sjá að hraun rennur nú ansi nálægt húsunum og gæti dregið til frekari tíðinda á hverri stundu.
Ármann Höskuldsson prófessor og eldfjallafræðingur segir að atburðarásin nú minni mest á Kröflueldana fyrir norðan, þar sem gekk á með smáum og stærri gosum með reglulegum hætti í um áratug. Ljóst væri að byggðin í Grindavík væri við þessar eldstöðvar og því væri ljóst að bærinn yrði ekki öruggur fyrir jarðhræringum eða frekari gosum næstu árin, hið minnsta.
Með því að smella á vefmyndavélar Ríkisútvarpsins hér að neðan má fylgjast með yfirlitsmynd úr fjórum myndavélum sem sýnir hið ótrúlega sjónarspil sem þarna stendur nú yfir.