Þjóðin slegin óhug yfir útbreiðslu Kórónaveirunnar: Sex hafa greinst í dag

Þrjú ný tilfelli af veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómi voru staðfest á veirufræðideild Landspítala í kvöld. Um er að ræða tvær konur og einn karl. Þau eru á sextugs- og fimmtugsaldri.

Af þessum tilfellum hafa tvö tengingu við Norður-Ítalíu en þessir einstaklingar komu til landsins frá Veróna á Ítalíu á laugardaginn, samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum.

Unnið er að smitrakningu á þriðja tilfellinu. Öll þrjú sýna einkenni COVID-19 sjúkdóms, en eru þó ekki mikið veik.

Eins og Viljinn skýrði frá fyrr í dag, greindust tvær konur og karl með veiruna í dag og höfðu þau verið á ferðalagi á Ítalíu.

Þar með er ljóst að frá því veiran greindist fyrst hér á landi á föstudag hefur orðið sprenging í tíðni smita og eru alls níu Íslendingar smitaðir af Kórónaveirunni.

Á samskiptamiðlum í dag og kvöld má sjá að þjóðin er slegin óhug yfir þessari miklu fjölgun staðfestra tilfella og óttast margir að greindum tilfellum eigi eftir að fjölga mikið næstu daga.