„Ég ætla rétt að vona að nú bretti menn upp ermar allir sem einn og láti þetta ganga saman,“ segir Stefán Guðmundsson, eigandi og forstjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Gentle Giants á Húsavík.
Vísar hann þar til fregna gærkvöldsins um að slitið hafi verið viðræðum bandaríska fjárfestingasjóðsins Indigo Partners og WOW air og viðræður séu að nýju hafnar milli Icelandair og WOW.
Stefán segir að þjóðin þurfi á því að halda að það gangi saman, svo mikið sé í húfi fyrir ferðaþjónustuna og efnahagslífið.
„Félögin eru bæði frábær — hvort á sínu sviði. Þau eru bæði særð á þessum tímapunkti — hvort með sínum hætti. Það á að vera keppikefli ríkisstjórnarinnar að sár þeirra grói við fyrsta tækifæri og ímynd þeirra laskist ekki meira en orðið er,“ segir hann.