Þjóðrækni til fyrirmyndar en þjóðremba alls ekki

Forsetahjónin í turni Mannréttindasafnsins í Winnipeg.

„Við erum smáþjóð; án tungunnar missum við sérkenni okkar og sérstöðu. Landið sjálft er einnig þungamiðja okkar þjóðarímyndar, ægileg fegurð þess og ekki síður þau gæði og auðlindir sem við eigum saman, Íslendingar, eins og við staðfestum vonandi senn í stjórnarskrá okkar,“ sagði Guðni T. Jóhannesson, forseti Íslands, í ræðu sem hann flutti í gær á aldarafmæli Þjóðræknisfélag Íslands á Nýja Íslandi í Vesturheimi — Winnipeg í Manitoba-fylki í Kanada.

Forsetinn vék að nafni félagsins og benti á að seinni hluti orðsins þjóðrækni er dreginn af sögninni að rækja, leggja rækt við, hirða um eitthvað.

„Skylt orð er frændrækni, að vilja vita um hagi ættfólks síns, sinnar eigin fjölskyldu. Frændrækni er lofsverð en öllu verri er frændhygli, að ívilna skyldfólki sínu á kostnað annarra.

Að sama skapi er þjóðrækni til fyrirmyndar en þjóðremba alls ekki. Hún felur í sér gorgeir og þótta í garð annarra, dramb og yfirlæti. Þjóðremba elur á óvild, þjóðrækni snýst um umburðarlyndi, víðsýni og náungakærleik,“ bætti forsetinn við og hvatti til heilbrigðrar þjóðrækni en afneita beri hrokafullri þjóðrembu.