Þjóðverjar sannfærðir um aðra bylgju í sumar eða haust

Þjóðverjar hafa farið tiltölulega vel út úr kórónaveirufaraldrinum miðað við margar þjóðir. Harðar samfélagstakmarkanir hafa skilað miklum árangri og þess vegna vilja margir sjá samfélagið komast sem fyrst í eðlilegt ástand. Læknar og vísindamenn á sviði smitsjúkdóma vara þó við of miklum og hröðum tilslökunum, því ekki sé spurning um hvort önnur bylgja veirusmita muni fara yfir landið — aðeins hvenær.

Þýska sóttvarnastofnunin, sem kennd er við Robert Koch, segir að önnur bylgja sé óumflýjanleg. Hún muni skella á í sumar, eða haust í allra síðasta lagi.

Þá er hættan sú að þarlend sjúkrahús og heilbrigðiskerfið í heild muni fá í hendurnar verkefni sem það ráði alls ekki við. Afleiðingarnar geta orðið mun verri en í fyrstu bylgju faraldursins, segir í Der Spiegel.

Þýskir sérfræðingar benda á, að þótt heimsbyggðin hafi að stórum hluta haldið sig heima undanfarnar vikur og efnahagskerfi heimsins liggi óbætt hjá garði, þá leiki veiran enn lausum hala. Ekki sé búið að ná tökum á henni, aðeins hægja tímabundið á útbreiðslu hennar.

Benda þeir að þar í landi hafi tiltekin landsvæði fyrst og fremst fundið fyrir hópsýkingum hingað til, en seinni bylgjan sé líkleg til að dreifa sér um allt landið. Covid-19 virði nefnilega hvorki landamæri, póstnúmer né mörk einstakra sveitarfélaga og fari því hratt og ósýnilega um allt.

Góðum árangri í fyrstu bylgjunni nú í Þýskalandi er líkt við kjarreld sem næst að slökkva í fæðingu. Nóttina eftir logar enn í glæðum undir yfirborðinu og fljótlega verður ekki við neitt ráðið.

Þjóðverjar óttast að eins verði það með seinni bylgjuna. Benda þeir á spænsku veikina 1918, máli sínu til stuðnings. Seinni bylgja hennar hafi komið öflugri en fyrr um haustið til margra borga og bæja og falið dauðann með sér.

Af þessum sökum eru engar líkur á að öllum takmörkunum verði aflétt í Þýskalandi í bráð. Góður árangur nú og hægari útbreiðsla tryggi að hægt sé að stórefla skimun og smitrakningu svo unnt verði að ráða við útbreiðslu veirunnar til framtíðar.

Hún sé því miður, komin til að vera.