„Minnisstæð er sagan af Jóni Oddi og Jóni Bjarna þegar þeir kynntust dauðanum í fyrsta sinn rétt fyrir jól en þá dó Selma, litla systir Lárusar vinar þeirra. Þá skildu þeir bræður að gleðin verður ekki keypt. Lífið er hverfult og getur horfið okkur í einu vetfangi. Og þó að heimur okkar hrynji virðist allt halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Á jólunum, þegar á okkur dynja skilaboð um hvað þurfi nauðsynlega til að halda gleðileg jól, verða þessar andstæður enn skýrari og minna okkur á hvað skiptir máli í raun.“
Þetta skrifar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í grein sem birtist í jólablaði Fréttablaðsins.
Hún segir tækifæri gefast til þess að ígrunda inntak tilverunnar þegar við fögnum jólum, bæði fyrir okkur sem saman byggjum íslenskt samfélag og okkur sem manneskjur.
„Jólin geta verið erfið, ekki síst þeim sem eiga um sárt að binda eða eiga erfitt með að ná endum saman. Þá skiptir máli að við styðjum hvert við annað, hjálpum hvert öðru og munum eftir hinu góða í tilverunni; ljósinu sem sigrast á myrkrinu. Alveg eins og Jón Oddur og Jón Bjarni sem fundu frið og gleði jólanæturinnar þrátt fyrir sorgina,“ segir forsætisráðherra.
„Við sem störfum á vettvangi stjórnmálanna vitum að margt er hægt að gera betur í íslensku samfélagi og verkefnin sem blasa við okkur virðast stundum ótæmandi. Í alþjóðlegu samhengi er íslenskt samfélag gott samkvæmt hlutlægum mælikvörðum: við erum friðsöm þjóð, jöfnuður er mikill, við höfum smám saman lært að nýta auðlindir okkar með sjálfbærari hætti, jafnrétti kynjanna er meira hér en víðast hvar, lýðræðisleg þátttaka er mikil, aðgengi að heilbrigðiskerfi og menntun er gott og við njótum þess að eiga hreint vatn og einstaka náttúru. Okkar verkefni er að halda áfram á sömu braut, takast á við verkefnin og bæta samfélagið þannig að við öll fáum tækifæri til að blómstra. Þó að okkur greini á um margt, þá stöndum við saman þegar á reynir og tökumst saman á við áföll þegar þau dynja yfir. Í þeirri samstöðu felast ómetanleg verðmæti,“ segir Katrín Jakobsdóttir.