Thomas Borgen ákærður fyrir aðild að mesta peningaþvætti sögunnar

Danska blaðið Børsen skýrði frá því í gær að danskur saksóknari hefði ákært Thomas Borgen, fyrrverandi forstjóra Danske Bank fyrir aðild að mesta peningaþvætti sögunnar.

Peter Schradieck, lögmaður Borgens, sagði húsleit hafa verið gerða heima hjá umbjóðanda hans 12. mars.

Borgen er sá fyrsti sem sætir ákæru í málinu sem snertir grunsamlegar færslur um 200 milljarða evra um útibú Danske Bank í Eistlandi árin 2007 til 2015.

Danskir eftirlitsmenn segja að bankafærslurnar snerti reikninga fólks  án búseturéttar í Eistlandi og 35% hafi verið Rússar. Næststærsti hópurinn var frá Bretlandi.

Borgen stjórnaði alþjóðaviðskiptum Danske Bank frá 2009 til 2012. Hann sagði af sér í september 2018 eftir að fjöldi grunsamlegra færslna kom í ljós við rannsókn.

Danske Bank, stærsti banki Danmerkur, sætir rannsókn í nokkrum öðrum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum þar sem hann kann að sæta háum sektum. Þá er bankinn einnig til rannsóknar í Frakklandi. Fyrir dómara í Kaupmannahöfn hafa tvær lögmannsstofur lagt fram kröfur fyrir hönd 19 fjárfesta um skaðabætur sem nema 3,1 milljarði d.kr.

Hneykslið teygir sig einnig til Svíþjóðar. Þar var forstjóri Sweabank rekinn eftir að grunsemdir vöknuðu um að reikningar í útbúum í Eystrasaltsríkjum hefðu verið notaðir til peningaþvættis.

Af vardberg.is, birt með leyfi.