Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, segir kominn tíma til að endurmeta áhættu af heimsfaraldri kórónuveirunnar. Hún segir ríkisstjórnina ekki hafa gert mistök með því að hafna tillögum sóttvarnalæknis um að seinka upphafi skólastarfs eftir jólafrí.
„Það eru auðvitað vonbrigði að við séum í þessari stöðu að 23 mánuðum liðnum. Ég held að að sama hvar við erum stödd í þessu öllu saman, þá séum við öll sammála um það,“ sagði Þórdís Kolbrún í Speglinum á RÚV í kvöld. Tími sé kominn til að skoða aðra þætti faraldursins, til að mynda á lýðheilsu, geðheilbrigði og andlega heilsu barna, unglinga og fullorðinna.
„Ég skil vel verkefni heilbrigðisráðherra sem er erfitt og mikil ábyrgð sem því fylgir og þegar hann fær meldingar um að spítalinn ráði ekki við verkefnið þá er mikill ábyrgðarhluti að bregast við því þannig að ég reyni hvað ég get til að hafa skilning á því en bið líka um skilning á því að það er eðlilegt að spyrja spurninga. Við erum að klára tvö ár af tímabili þar sem við tókum ákveðin borgaraleg réttindi að láni og við ætlum að skila þeim aftur og það er alveg er allt í lagi að spyrja hvenær sá tími er kominn,“ segir hún ennfremur.
Ráðherrann bætti við að ekki hafi komið til alvarlegrar skoðunar að velja þriðja möguleikann í minnisblaði sóttvarnalæknis um harðar lokanir næstu tíu daga. Slíkt væri lögfræðilega stór spurning hjá fullbólusettri þjóð og með minna alvarleg afbrigði veirunnar en áður og margfalt minni líkur á innlögnum. Auk þess væri líklegt að þá hefðu smit aftur blossað upp eftir tíu daga.
Aðspurð hvort ekki hafi verið mistök af hálfu ríkisstjórnarinnar að fara ekki að ráðum sóttvarnalæknis og seinka upphafi skólastarfs til að minnka útbreiðslu veirunnar, segir hún svo ekki vera.
„Ég er ekki þeirrar skoðunar. Það er mín persónulega skoðun að það hafi ekki verið mistök því við tókum þá ákvörðun fyrir dálítið löngu síðan ríkisstjórnin, að forgangsraða algjörlega þegar kemur að skólagöngu og rétti barna til að sækja sína menntun. Þrátt fyrir að það séu jú smit í skólum, þá er leiðarljós okkar og heilbrigðisráðherra hefur verið alveg skýr með það, ef það skapast þær aðstæður að það þarf að loka einum skóla í einu hverfi í Reykjavík þá sé óþarfi að loka öllum grunnskólum á öllu landinu.“ segir Þórdís.