Þorgerður og Logi hvetja til þess að 3. orkupakkinn verði innleiddur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hafa sent Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf, þar sem þau minna á mikilvægi EES-samningsins fyrir íslenskt samfélag, heimili og fyrirtæki — og í því samhengi mikilvægi þess að afgreiða þriðja orkupakkann hið snarasta.

„Sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur í enn eitt skiptið frestað að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um staðfestingu á þriðja orkupakkanum. Ítrekað hefur verið fullyrt að tillagan verði lögð fram í síðasta lagi á þingi í lok febrúar 2019. Í dag er 5. mars og enn er talað um að taka þurfi tíma,“ segir Þorgerður Katrín.

Hún segir öllum vera ljóst, að erfiðleikar eru innan ríkisstjórnar við að koma fram með málið. Flest bendi til þess að ekki sé meirihluti fyrir málinu á þingi á meðal ríkisstjórnarflokkanna.

„Þess vegna vildum við Logi fyrir hönd Viðreisnar og Samfylkingar bjóða forsætisráðherra fram aðstoð okkar og gera það sem í okkar valdi stendur til að tryggja framgang málsins á Alþingi,“ segir hún.