Þórlindur Kjartansson, fv. formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi að mörgu leyti troðið hugmyndafræðilegan marvaða eftir bankahrunið. Dágóður hópur flokksmanna hafi sagt skilið við flokkinn og stofnað Viðreisn, mjög margir af þeim sem gengu í flokkinn á þeim grundvelli að hann væri hreyfiafl breytinga hafa sagt skilið við hann, sagt sig úr honum eða eru hættir að kjósa hann.
„Staða flokksins meðal fólks af minni kynslóð er bág,“ segir Þórlindur í grein sem birtist í tímaritinu Þjóðmál í dag og er rituð í tilefni af 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins á þessu ári, undir yfirskriftinni: Sjálfstæðisflokkur framtíðarinnar.

„Fólkið sem mótaðist af Davíð Oddssyni og skilaboðunum um hreyfanleika og tækifæri lítur síður á Sjálfstæðisflokkinn sem þann vettvang sem passar best við lífssýn þess. Í gegnum ýmis mál — fjölmiðlalögin, stuðning við Íraksstríðið, umdeildar dómararáðningar, einangrunartal sumra þingmanna flokksins og krampakennda vörn fyrir íslensku krónuna (þótt henni hafi ítrekað verið hafnað á landsfundi) — hefur fjölmargt frjálslynt fólk af minni kynslóð fengið efasemdir um raunverulegt erindi flokksins. Og helsti talsmaður bjartsýni, víðsýni og frjálslyndis á uppvaxtarárum minnar kynslóðar virðist í dag vera stöðugt tortryggnari gagnvart þessum gildum,“ segir Þórlindur.
„Maðurinn sem var ástæða þess að svo margir af minni kynslóð löðuðust að Sjálfstæðisflokknum fælir sama fólk frá flokknum í dag,“ bætir hann við.
