Þórólfi falið að bera ábyrgð á sýnatöku í Leifsstöð: Telur áhættuna ekki mikla

Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi Almannavarna. / Júlíus Sigurjónsson LRH.

„Erfitt er að spá fyrir um hver áhættan er á aukningu á samfélagslegu smiti af völdum COVID-19 hér á landi ef fjöldi ferðamanna eykst að einhverju magni. Smit á Íslandi hjá ferðamönnum eru mjög sjaldséð og ekki hefur tekist að rekja innanlandssmit til ferðamanna. Áhættan virðist þannig ekki vera mikil en hún fer að sjálfsögðu eftir þróun faraldursins erlendis, hvaðan ferðamenn eru að koma og hvaða ráðstafanir eru viðhafðar hérlendis til að lágmarka smithættu. Öflugir innviðir eru einnig mikilvægir til að koma í veg fyrir útbreiðslu og sérstaklega hefur víðtæk skimun fyrir sjúkdómnum, smitrakning, einangrun sýktra og sóttkví útsettra einstaklinga sannað gildi sitt,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í minnisblaði til heilbrigðisráðherra sem lagt var fyrir ríkisstjórnarfund í morgun.

„Þó að líklegt sé að sýktir einstaklingar muni greinast áfram hér á landi á næstu vikum og mánuðum þá má fullvíst telja að slíkar sýkingar yrðu ekki útbreiddar vegna öflugra innviða og reynslu viðbragðsaðila sem fengist hefur á undangengnum mánuðum. Íslenskt heilbrigðiskerfi ætti því að vera í stakk búið að fást við frekari sýkingar svo fremi að þær verði ekki útbreiddar,“ segir einnig í minnisblaðinu.

Og Þórólfur bætir við:

„Ég tel mikilvægt að skimun á landamærastöðvum verði hrint í framkvæmd eigi síðar en 15. júní því mikilvægt er fá reynslu af skimuninni á meðan alþjóðlegur ferðamannastraumur er ekki mikill.“

Gríðarlegar efnahagslegar afleiðingar af áframhaldandi takmörkunum

Samkvæmt hagrænu mati sem unnið var að beiðni forsætisráðherra og kynnt var í ríkisstjórn í morgun yrðu efnahagslegar afleiðingar þess að viðhalda óbreyttu ástandi ferðatakmarkana gríðarlegar og rétt að draga úr þeim samhliða sóttvarnaaðgerðum. Takmarkaður ferðavilji í heiminum skapi aðstæður til að stíga varfærin skref í átt til opnunar.

Þá hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að fallast á tillögu sóttvarnalæknis, sem fjallað var um á fundi ríkisstjórnar, um breytingu á reglum um komur ferðamanna til Íslands. Komufarþegum mun standa til boða að fara í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli frá og með 15. júní og í framhaldinu á öðrum helstu landamærastöðvum eða framvísa jafngildu vottorði að utan. Að öðrum kosti þurfa þeir að fara í tveggja vikna sóttkví eins og verið hefur.

Sóttvarnalæknir mun bera meginábyrgð á framkvæmd sýnatöku og greiningu sýna í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sýkla- og veirufræðideild Landspítala og Íslenska erfðagreiningu en forsætisráðherra hefur skipað samhæfingarteymi sem aðstoðar sóttvarnalækni við undirbúning og framkvæmd verkefnisins.

Bráðabirgðamat bendir til þess að kostnaður við sýnatöku á Keflavíkurflugvelli fyrstu tvær vikurnar frá rýmkun reglna um komu ferðamanna til landsins yrði um 160 milljónir króna ef 500 manns koma til landsins á dag en stefnt er að því að tilkynna á næstu dögum hvað sýnatakan muni kosta farþega.


Efnahagsleg sjónarmið við losun ferðatakmarkana – hagræn greining.

Minnisblað sóttvarnalæknis.