„Af tölum undanfarinna daga er ljóst að COVID-19 faraldurinn er í miklum vexti og hefur náð að dreifa sér um allt land. Síðastliðna tvo daga hafa 319 einstaklingar greinst smitaðir af COVID-19 innanlands og er það mesti fjöldi á tveimur dögum frá því að faraldurinn hófst hér á landi. Álag er áfram mikið á Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri en nú liggja 15 einstaklingar inni á Landspítala með COVID-19 og þar af 4 á gjörgæsludeild. Auk þess liggur einn inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri og er sá í öndunarvél. Búast má við fleiri innlögnum á næstunni vegna vaxandi fjölda smita í samfélaginu sem mun auka enn frekar á vanda spítalakerfisins.“
Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í pistli sem birst hefur á covid-upplýsingasíðunni.
„Eins og margoft hefur komið fram þá er eina ráðið til að koma í veg fyrir neyðarástand á sjúkrahúsum landsins að fækka smitum í samfélaginu. Til þess þarf takmarkandi aðgerðir í samfélaginu því einstaklingsbundnar sóttvarnir duga ekki einar og sér til að bæla faraldurinn niður.
Sóttvarnalæknir hefur sent minnisblað til heilbrigðisráðherra þar sem bent er á alvarlega stöðu faraldursins og bent á fyrri aðgerðir innanlands sem skilað hafa árangri til að fækka smitum.
Nú gildir að sýna samstöðu og viðhafa þær sóttvarnir sem við vitum að skila árangri. Forðumst hópamyndanir, virðum eins metra nándarreglu, notum andlitsgrímu ef ekki er hægt að viðhafa eins metra nánd við ótengda aðila og/eða í illa loftræstum rýmum, þvoum og sprittum hendur, höldum okkur til hlés ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 og mætum í PCR próf. Einnig er mikilvægt að viðhafa góða smitgát þar til niðurstaða úr PCR prófi liggur fyrir,“ segir hann ennfremur.