Þórólfur segir að jafnvel þurfi að grípa til enn harðari aðgerða í stuttan tíma

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir. / Ríkislögreglustjórinn: Júlíus Sigurjónsson.

„Með vaxandi fjölda smita undanfarið þá hefur skapast mikið álag á heilbrigðiskerfið og alla innviði sem vinna að því að hefta útbreiðslu COVID-19. Landspítalinn er nú kominn á hættustig sem þýðir að veruleg breyting hefur orðið á starfsemi göngudeilda spítalans og veruleg röskun á ýmissi þjónustu. Í reglulegu eftirliti landlæknis með stöðu stofnana innan heilbrigðiskerfisins kemur fram að á Landspítala stigast mönnun á rauðu sem þýðir að mikill skortur er á starfsfólki og vinnuálag óásættanlegt þrátt fyrir að leitað hafi verið til bakvarðasveitar. Þá er fjöldi legurýma ekki fullnægjandi á Landspítala. Sömuleiðis hefur starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri raskast vegna þeirra covid sjúklinga sem þar hafa þurft að leggjast inn og vaxandi álag þar aukist. Hið sama má segja um margar aðrar heilbrigðisstofnanir. Nú þegar hefur eftirlitsgeta covid göngudeildar Landspítalans skerst vegna vaxandi fjölda smita, starfsemi rakningateymis sóttvarnalæknis og almannavarnardeildar er í uppnámi vegna mikils fjölda smita, farsóttarhús eru að fyllast og álag á Læknavaktina og heilsugæsluna aukist vegna covid tengdra verkefna.“

Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem hann sendi heilbrigðisráðherra í vikunni og var rætt í ríkisstjórn í morgun. Í kjölfarið var ákveðið að herða mjög sóttvarnaráðstafanir hér á landi, enn einn ganginn.

Þórólfur segir að fullyrða megi, að sú aukning sem orðið hefur undanfarið á greiningum COVID-19 sé farin að valda alvarlegri röskun á starfsemi heilbrigðiskerfisins og á öllu eftirliti með covid smituðum einstaklingum.

„Því tel ég brýnt að gripið verði til samfélagslegra aðgerða sem fyrst til að komið verði í veg fyrir enn alvarlegra ástand í heilbrigðiskerfinu og þjóðfélaginu öllu. Einnig vil ég benda á að með útbreiddu smiti í samfélaginu þá mun skapast sú hætta að veikindi í fyrirtækum og atvinnurekstri mun valda verulegri röskun á allri þeirra starfsemi,“ segir hann og bætir við:

„Ég legg því harðari takmarkanir næstu vikur á meðan að víðtæku ónæmi í samfélaginu verður náð með örvunarbólusetningum sem ég tel að séu forsendan fyrir frekari tilslökunum. Að mínu mati kemur jafnframt til greina að setja hér á enn harðari aðgerðir en hér eru boðaðar í stuttan tíma til að ná fjölda smita eins hratt niður og mögulegt er. Með því yrði mögulegt að aflétta fljótt í kjölfarið. Einnig þurfa stjórnvöld að vera tilbúin til að grípa til hertra aðgerða ef viðunandi árangur sést ekki af þeim aðgerðum sem gripið verður til. Stefnt skuli að því að 7 daga meðaltal smit verði um 50. Búast má við að um 7-10 daga taki að sjá fyrstu merki um árangur af aðgerðum.“

Hægt er að lesa minnisblaðið í heild sinni hér.