Ríkisstjórnin kemur saman til fundar í dag eftir að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendi heilbrigðisráðherra nýtt minnisblað um helgina með tillögum um hertar aðgerðir á landamærunum. Hann segir ljóst að ný bylgja COVID-19 sé hafin hér á landi og nú komi í ljós hvort hjarðónæmi hafi myndast í samfélaginu vegna bólusetninga.
Í gær, sunnudaginn 18. júlí greindust 16 manns með COVID-19 smit innanlands, þar af voru 6 í sóttkví. Einn greindist með COVID-19 á landamærunum. Eftir daginn í gær eru 385 manns í sóttkví og 124 í einangrun. Viðbúið er að verulega fjölgi í þeim hópi í dag eftir smitrakningu.
Viljinn spurði Þórólf í dag hvort fjöldi nýrra tilfella marga daga í röð sé ekki einfaldlega til marks um að ný bylgja sé hafin. Hann svaraði því játandi. „Það er ekkert hægt að horfa á það öðruvísi. Þetta er orðið útbreitt og komið yfir staðbundnar hópsýkingar. Þetta er líka í samræmi við þróun faraldursins í öðrum löndum.“
Hann vill ekki upplýsa um efni minnisblaðsins áður en ráðherrar fjalla um það, en hefur áður lagt til að krafa verði sett um neikvætt PCR-próf fyrir þá sem koma hingað til lands. „Við gleymum því oft að flestar þjóðir eru með miklu strangari skilyrði en við fyrir ferðamenn. Það er gerð krafa um fyrirsjáanleika við ófyrirsjáanlegar aðstæður og það er ekki hægt. Við verðum einfaldlega að vega og meta áhættuna miðað við stöðuna hverju sinni og grípa til aðgerða í samræmi við það. Það getur enginn lofað því að engin smit verði hér á landi, hvorki ég né ríkisstjórnin. Það er því enginn að ganga á bak orða sinna,“ bætir Þórólfur við.