Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kveðst ekki tilbúinn að slaka á sóttvarnakröfum í því skyni að liðka fyrir afgreiðslu komufarþega á Keflavíkurflugvelli. Hann segir í samtali við Viljann, að öll vottorð verði að skoða, annað hvort við byrðingu í vélarnar erlendis eða hér á landamærunum.
„Best væri að skoða vottorðin á báðum stöðum,“ segir Þórólfur. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra sagði í samtali við Vísi fyrr í dag, að bólusetningavottorð verði skoðuð með tilviljanakenndum hætti í þeim tilgangi að leysa úr þeim flöskuhálsi sem hefur myndast og skapað mannmergð á Keflavíkurflugvelli undanfarnar vikur.
„Það er auðvitað ekki hægt að hafa stöðuna eins og hún er núna, hvort sem menn líta til sóttvarnaráðstafana né heldur upplifun fólks af því að fara í gegnum völlinn. Ég veit að það er verið að vinna sérstaklega að því að kanna flæði á vellinum og hvort það eigi að skoða bólusetningavottorð með meira tilviljanakenndum hætti en hvert og eitt einasta,“ segir Þórdís og bætti við að nýtt verklag verði tekið upp fyrir vikulok.
Um slíkar stikkprufur með tilviljanakenndum hætti, segir Þórólfur: „Forsenda þess að hægt sé gera hér stikkprufu á vottorðum er að þau hafi verið skoðuð við byrðingu.“
Flugfélög sem hingað koma hafa ekki verið skyldug til að óska eftir vottorðum þeirra sem hingað ætla, hvorki um fyrri sýkingu né bólusetningu.