Þreföldun framleiðslu í fiskeldi hér á þremur árum

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Í fyrra voru framleidd rúm 13 þúsund tonn af eldislaxi. Samkvæmt upplýsingum frá eldisfyrirtækjunum er ráðgert að framleiða 45 þúsund tonn árið 2021, eftir tvö ár. Þetta þýðir rúmlega þreföldun á framleiðslu á þremur árum. Þetta myndi þýða að útflutningsverðmæti eldisfisks árið 2021 yrði svipað og samanlagt útflutningsverðmæti loðnu, kolmunna og makríls var árið 2017.

Þetta kom fram í máli Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í Hörpu í dag. Hann sagði þessa þróun stórmerkilega, gangi hún eftir.

„Íslenskt fiskeldi er komið til að vera og hefur alla burði til að verða enn sterkari og öflugri atvinnugrein. Ábyrgð stjórnvalda er að skapa greininni þannig lagaumhverfi að það verði vandað til verka í þeirri uppbyggingu sem fram undan er. Stuðla að því að hún sé sjálfbær, í sátt við umhverfið og ákvarðanir verði byggðar á vísindalegri ráðgjöf og rannsóknum. Á þessum grunni verða fiskeldi allir vegir færir,“ sagði Kristján Þór.

Hann benti á að tvö frumvörp sem snerta greinina með beinum hætti liggi nú fyrir Alþingi, annars vegar um breytingar á ýmsum lögum um fiskeldi og hins vegar um gjaldtöku á greinina.

„Ég hef í umræðu um fiskeldi vísað til þess að helsti lykilinn að velgengni í norsku fiskeldi er að þeirra mati talin vera samvinna fjögurra lykilþátta, það er stjórnvalda, fiskeldisfyrirtækja, náttúrunnar og vísinda.

Ef við heimfærum þetta yfir á stöðu mála hér á landi þá er augljóst að margt þarf að gera betur. Nú er unnið að því að styrkja þann hluta sem snýr að stjórnvöldum, meðal annars með því að setja á fót samráðsnefnd allra þessara aðila. En ég vil jafnframt skora á ykkar samtök að beita ykkur fyrir því að fiskeldisfyrirtækin tali sem næst einni röddu. Jafnframt þarf að nást meiri samstaða og sátt um hinn vísindalega þátt sem hvílir hjá Hafrannsóknastofnun. Þar þurfa allir – meðal annars stofnunin sjálf – að leggja sitt að mörkum. Í því samhengi má ekki gleyma því að sjálf vísindin ganga jú ekki síst út á að kynda undir neistum efans og útiloka aldrei að ný þekking verði til þess að aðlaga þurfi fyrri kenningar nýrri vitneskju eða að þeim verði jafnvel kollvarpað,“ sagði hann.

Gjöld sem þekkjast ekki í rekstrarumhverfi erlendis

„Það skýtur á margan hátt skökku við að á sama tíma og stjórnvöld hvetja til þess að íslenskur sjávarútvegur ráðist í fjárfestingar á umhverfisvænni skipum sé lagt sérstakt gjald á þessar sömu fjárfestingar sem ekki þekkist í rekstrarumhverfi erlendra samkeppnisaðila,“ sagði ráðherrann ennfremur og vísaði til þess stimpilgjalds sem greiða ber við eignatilfærslur fyrir skip yfir 5 brúttótonnum.

„Þessa gjaldtöku þarf að endurskoða enda myndi það fela í sér hvata fyrir íslenskan sjávarútveg til að hraða enn frekar endurnýjun fiskiskipaflotans og þannig stuðla að loftslagsvænni sjávarútvegi. Það er öllum til hagsbóta,“ sagði hann.

„Varðandi veiðigjaldið leyfi ég mér að rifja upp orð mín á þessum vettvangi fyrir ári síðan. Þar gerði ég grein fyrir væntanlegu frumvarpi um veiðigjald og að markmið þeirrar vinnu væri að tryggja að greiðsla veiðigjalds taki tillit til afkomu fyrirtækja eins og hún er á hverjum tíma og að gjaldið sé einfalt, stöðugt og fyrirsjáanlegt.

Ég tel að þessum markmiðum hafi verið náð. Þannig er óumdeilt að gjaldtakan er eftir þessar breytingar meira í takt við afkomu fyrirtækja. Þá voru margvíslegar breytingar gerðar til einföldunar – meðal annars var felld niður gjaldtaka á lítið veiddar tegundir. Veiðigjaldsnefnd var lögð niður og útreikningur og álagning gjaldsins færð til Ríkisskattstjóra. Hagnaður fiskvinnslu kemur ekki lengur útreiknings veiðigjalds. Tekið er tillit til fjárfestinga í skipum og tækjabúnaði í sjávarútvegi við útreikning á gjaldstofni gjaldsins. Fleira mætti nefna.

Hvað sem öllu þessu líður verður stóra þrætueplið í allri þessari umræðu þó alltaf það sama. Hversu stóran hluta á ríkið að taka til sín? Ég veiti því sjónarmiði – að það gjald sem var lögfest sé of hátt – fullan skilning. Á sama tíma tel ég þó augljóst að núverandi gjaldtaka sé á allan hátt betri en það sem áður var og efast um að nokkur myndi vilja snúa til baka,“ bætti hann við.