Þrengt að samkeppnishæfni landsins úr öllum áttum

Hörður Ægisson viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins.

„Þetta slapp fyrir horn. Með hliðsjón af vanstilltri verkalýðshreyfingu, sem hélt hagkerfinu í gíslingu með kröfum sem aldrei var innstæða fyrir, og með annað af stóru flugfélögunum, sem flutti um þriðjung allra ferðamanna til landsins, í langvinnu dauðastríði var útlitið í efnahagsmálum ekki mjög bjart í ársbyrjun. Betur fór hins vegar en margir höfðu réttilega óttast. Að lokum þurfti til gjaldþrot WOW air, sem var þjóðarbúinu dýrkeypt, svo leiðtogar hinna herskáu stéttarfélaga sæju að sér og viðurkenndu sumpart hinn efnahagslega veruleika. Samþykktir voru kjarasamningar, sem voru skaplegir en kostnaðarsamir, sem skapaði um leið forsendur fyrir Seðlabankann til að lækka vexti. Þrátt fyrir meiriháttar áföll í ferðaþjónustu hefur gengið lítið lækkað og verðbólgan haldist stöðug. Það er til marks um aðlögunarhæfni og áður óþekktan styrk þjóðarbúsins sem grundvallast einkum á myndarlegum óskuldsettum gjaldeyrisforða og jákvæðri eignastöðu við útlönd.“

Þetta skrifar Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri í leiðara Fréttablaðsins í dag, þar sem hann gerir upp árið sem er að líða og spáir í spilin fyrir framhaldið.

„Næsta ár verður hins vegar krefjandi. Allt útlit er fyrir að raunlaun hérlendis, sem eru nú fyrir ein þau hæstu innan OECD, muni halda áfram að hækka meira en í nágrannaríkjum okkar og þannig skerða enn frekar samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Fyrir mörg fyrirtæki, einkum lítil og meðalstór, er ekki í boði að taka á sig enn meiri launakostnað og því fáir aðrir valkostir í stöðunni en uppsagnir á starfsfólki eða gjaldþrot. Við þessar aðstæður er ekki við því að búast að fjárfesting í atvinnulífinu, sem hefur dregist saman að undanförnu, muni taka mikið við sér á næstunni. Atvinnuleysi, sem er nú óðum að nálgast fimm prósent, mun því að líkindum halda áfram að aukast og störfum fækka,“ bætir hann við.

Hörður segir því blasa við nýjar áskoranir.

„Sögulega séð hefur gengisfall ávallt verið fylgifiskur niðursveiflu í efnahagslífinu sem hefur þá gefið útflutningsatvinnuvegunum viðspyrnu og þá um leið hagkerfinu í heild sinni. Nú er öldin önnur vegna þeirra jákvæðu grundvallarbreytinga sem hafa orðið á hagkerfinu á örfáum árum og gefið okkur færi á því, sem er nýlunda, að lækka vexti á samdráttarskeiði. Hin hliðin á teningnum nú þegar gengi krónunnar, sem hefur í gegnum tíðina gegnt því hlutverki að vera innbyggður sveiflujafnari fyrir íslenskt efnahagslíf, hefur lítið sem ekkert gefið eftir er hins vegar talsvert síðri. Afleiðingin sem birtist okkur þar er að samkeppnisstaðan leiðréttist ekki eins og áður og atvinnuleysi kann að aukast meira en Íslendingar hafa hingað til talið ásættanlegt.

Hvað er til ráða? Flestir vita hvar vandamálið liggur. Það er þrengt að samkeppnishæfni landsins úr öllum áttum. Skiptir þá engu hvort litið sé til hás launakostnaðar, skattlagningar á fyrirtæki og heimili, raunvaxtastigs sem er mun hærra en þörf er á eða eftirlitsstofnana sem gera kröfur um strangara regluverk gagnvart íslenskum fyrirtækjum en þekkist í Evrópu. Á nýju ári væri ágætt ef fleiri, einkum stjórnmálamenn, embættismenn og verkalýðshreyfingin, myndu huga að þeirri staðreynd að sú verðmætasköpun sem verður til helst í hendur við alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands. Meira af því sama er ekki í boði ef við ætlum að geta áfram boðið upp á ein bestu lífskjör sem þekkjast í heiminum,“ segir Hörður ennfremur í leiðara sínum.