Einn sjúklingur lést á síðasta sólarhring á Landspítala vegna Covid-19. Frá þessu er greint á vef Landspítalans í dag, þar sem aðstandendum er vottuð samúð.
Þetta er þriðja dauðsfallið í þriðju bylgju faraldursins hér á landi og hið þrettánda frá því farsóttin kom upp í lok febrúar.
Búist er við því að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggi til hertar samkomutakmarkanir við heilbrigðisráðherra í dag eða á morgun vegna útbreiðslu farsóttarinnar innanlands sem ekkert lát er á.
Er þá einkum vísað til þess sem gert var hér á landi í mars sl., þar sem landsmenn voru beðnir um að ferðast innanhúss, það er halda sig sem mest heima, auka enn grímuskyldu þar sem fjarlægðarmörk eru ekki tryggð, draga úr hámarksfjölda þeirra sem mega koma saman, takmarka skólastarf með einhverjum hætti og draga markvisst úr tiltekinni starfsemi.
Þá er og búist við hertari aðgerðum á landamærunum, en nokkur aukning hefur orðið þar að undanförnu á nýsmitum, einkum hjá komufarþegum frá Póllandi, og eru vísbendingar um að smit því tengd séu farin að koma upp í samfélaginu.