Í dag greindist íslensk knattspyrnukona í efstu deild með jákvætt sýni í COVID-19 sýnatöku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.
Knattspyrnukonan kom til landsins 17. júní sl. og reyndist sýnataka á landamærum neikvæð. Síðar kom í ljós að hún hafði verið í nánd við smitaðan einstakling erlendis og fór því aftur í sýnatöku. Sú sýnataka reyndist jákvæð. Sem stendur er hún einkennalaus.
Þetta er í þriðja sinn á örfáum dögum sem sýnataka of snemma í sýkingarferli gefur falska niðurstöðu og vekur upp spurningar um áreiðanleika þeirra sýna sem tekin eru í Leifsstöð.
Á dögunum greindust tveir lögreglumenn á Suðurlandi með veiruna eftir að hafa tekið þátt í handtöku rúmensks glæpagengis. Þeir höfðu áður farið í sýnatöku og þá ekki greinst smitaðir.
Allir sem hafa verið útsettir fyrir smiti í samskiptum við knattspyrnukonuna síðastliðna tvo sólarhringa þurfa að fara í sóttkví í 14 daga. Smitrakning er í gangi en ljóst er að margir þurfa að fara í sóttkví., þar á meðal leikmenn tveggja knattspyrnuliða og er Íslandsmótið í knattspyrnu kvenna því í ákveðnu uppnámi.
Málið er í vinnslu og frekari upplýsinga er að vænta á morgun.