Á aðeins tveimur sólarhringum rúmum eru komin þrjú staðfest smit hér á landi af Kórónaveirunni. Í kvöld var tilkynnt að kona á fimmtugsaldri hafi greinst, en hún kom til landsins með flugi frá Þýskalandi en hafði verið í skíðaferðalagi á Norður Ítalíu.
Eins og Viljinn greindi frá fyrr í dag, greindist karlmaður á sextugsaldri fyrr í dag en hann var nýkominn frá Ítalíu.
Nú eru um þrjú hundruð manns í sóttkví vegna veirunnar hér á landi og má búast við því að sú tala fari ört hækkandi, þar sem unnið er að því að greina hverja hinir sýktu hafa verið í samneyti við og í framhaldinu verða fleiri prófaðir fyrir mögulegu smiti.
Sprengingin í smitum undanfarna sólarhringa vekur upp áleitnar spurningar um það hvort nægilega varlega var farið í meðhöndlun flugfarþega frá áhættusvæðum á Ítalíu.
Sömuleiðis er orðið ljóst, að með þremur smitum er Ísland, með sína 330 þúsund íbúa, orðin sú þjóð utan Kína sem er með hlutfallslega með hvað flest smit af Kórónaveirunni miðað við höfðatölu.