Þriðji orkupakkinn er hluti af því að standa vörð um EES

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra. / Landsvirkjun.

„Það er augljóst að það er deilt um orkupakkann. Ég hef lagt mig fram um að koma upplýsingum á framfæri. Ég hef átt hreinskiptin samtöl við alls konar Sjálfstæðisfólk og aðra um orkupakkann. Við höfum lagt í mikla vinnu, breytt málinu og brugðist við áhyggjum. Það að vera stjórnmálamaður snýst ekki um að hlusta á skoðanakannanir eða beygja sig fyrir þeim eða þegar einhver skrifar um mál með ákveðnum hætti heldur að hlusta á sína sannfæringu og klára mál, þó þau séu erfið. Ég fór ekki í pólitík af því að ég héldi að það væri auðvelt. Þriðji orkupakkinn er hluti af öðru, stærra samhengi. Hluti af því að standa vörð um EES.“

Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við helgarblað Fréttablaðsins í dag, en harkaleg átök um orkupakkann hafa skekið Sjálfstæðisflokkinn undanfarið og sýna skoðanakannanir að kjósendur flokksins eru honum andsnúnir.

Þórdís Kolbrún segir nauðsynlegt að regluverk EES þróist áfram, en standi ekki í stað. Það hafi gefist vel á fjarskiptamarkaði, svo dæmi séu tekin.

„Þetta er það sem þarf að gerast í orkumálum. Sjálfstæðisflokkurinn er á móti ESB-aðild og þess þá heldur er EES-samningurinn mikilvægur. Við þurfum að vera með sterka hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd í því samstarfi. Það er það sem við erum að auka í okkar tíð í utanríkisráðuneytinu. Það er ekki þannig að við tökum allt beint af kúnni eins og það kemur frá Evrópusambandinu og innleiðum hér,“ segir hún í viðtalinu.

Hún segir grasrót Sjálfstæðisflokksins einstaka í samanburði við aðra stjórnmálaflokka hér á landi, en breytingin sé sú að færri kjósendur en áður bindist tilteknum flokki.

„Við þurfum að hafa kjark til þess að tala við alla kjósendur og ná eyrum almennings. Ég fór í pólitík til að hafa áhrif á flokkinn til framtíðar, ekki til fortíðar. Það eru tugir þúsunda Íslendinga sem eru á kjörskrá í dag sem voru það ekki árið 2005. Við verðum að vera óhrædd við að fá nýtt fólk til fylgis við okkur. Þá þarf maður að tala skýrt,“ bætir hún við.

Sjá viðtal Fréttablaðsins.