„Þriðji orkupakkinn gengur út á samruna og yfirráð yfir íslenskum auðlindum“, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins á flokkráðsfundi í Garðabæ í dag, en hann gerði orkumálin að sérlegu umtalsefni í ræðu sinni, en ríkisstjórnin leggur fram þingsályktunartillögu um innleiðingu hans á næstu dögum. Hann sagði um heildarhagsmuni ESB að ræða, en ekki hagsmuni hvers ríkis fyrir sig og sé málið því því fullveldismál.
„Hluti af markmiðum þriðja orkupakkans er að koma Íslandi í ESB. Rökin fyrir samþykki orkupakkans eru ekki til staðar, heldur er þetta liður í gangverki kerfisins, tannhjól sem snýst, ein tönn í einu.“
Hann sagði það mikið áhyggjuefni stjórnvalda á Íslandi og víðar, að stjórnmálamenn séu hættir að stjórna og á meðan sé það kerfið sem ræður.
Vandamál ríkisstjórnar með breiðri skírskotun sé að ekki verði til stefna eða framtíðarsýn, heldur einungis skipting ráðherrastóla og samstaða um fjármálin. „Báknið hefur aldrei verið stærra en nú og stækkar enn samkvæmt fjármálaáætlun,“ sagði Sigmundur Davíð.
„Við höfum aldrei verið fleiri í Miðflokknum en í dag. Okkur hefur fjölgað og við skynjum meðbyr og áhuga á því sem við erum að gera,“ sagði Sigmundur Davíð. Fjölgun hafi einnig orðið í þingflokknum og það sé öflugur liðsauki, sem hafi „lent á jörðinni hlaupandi“ og átti þar við Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason. Hann talaði um að við muni bætast hlutverk vegna fjölgunar nefndarsæta, sem hann telur Miðflokkinn eiga rétt á í framhaldinu og hrósaði styrk flokksins í sveitarstjórn.
Hann gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir skort á stefnu, sýn og viðbrögðum þegar eitthvað kemur upp á og tók sem dæmi strandaglópa flugfélagsins WOW, „eina framlag ríkisstjórnarinnar var að biðja einhverja aðra um að vera undir það búnir að koma fólki heim“, og ástandið á vinnumarkaði vegna kjaradeilna og falls flugfélagsins. Einnig nefndi hann stefnuleysi í landbúnaðarmálum sérstaklega.
Orkuyfirráð tengd fullveldi landa
„Þriðji orkupakkinn er ótrúlegt hagsmunamál og snýst um tilraun ESB til að afla sér umhverfisvænnar orku, en um leið að ESB fái full yfirráð yfir orkumálum í álfunni. Sá sem stjórnar orkunni stjórnar býsna mörgu öðru, t.d. í stríði,“ segir Sigmundur Davíð og bætir við að orkuyfirráð séu tengd fullveldi landa.
„ACER, samstarfstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, gengur út á að stjórna. Undir henni orkustofnanir hvers lands fyrir sig. Líkja má fyrirkomulaginu við gamla lénskerfi Evrópu,“ segir hann og bætir við: „Þetta snýst um að færa ákvörðunarvaldið frá almenningi til kerfisins. Yfirráð yfir orkumálum mun færast til fjarlægrar erlendrar stofnunar og embættismannanna þar.“
Hann segir að Landsvirkjun muni bera skylda til að fylgja fyrirmælum ACER og að stofnunin geti beitt fyrirtækin sektum, og hafi þannig vald til að refsa. Sektarfjárhæðir geti numið allt að 10% af brúttóveltu fyrirtækjanna.
„Kærunefnd ACER fjallar um sjálfa sig. Valdið er þannig fært á einn stað og markmiðið er að ESB hafi stjórn á orkuframleiðslu og sölu álfunnar. Allt verði að fara á markað og verðin þurfa að lúta því.“
Ódýr orkusala til t.d. íbúa landsins yrði þannig flokkuð sem undirboð á markaði. Ekki verði hægt að gera aðra samninga. Einn markaður þýði að öll orkan í ESB fari í einn pott og Íslendingar muni þannig verða notendur kjarnorku og kola og missi sérstöðu hreinnar orku. ESB geti knúið fram framleiðsluaukningu og erlendir orkuframleiðendur hérlendis geti orðið við því, og ekkert af sölunni skili sér til Íslands.
Sigmundur bendir á að Ísland sé nú þegar komið á lista ACER og gefur í skyn að það sé barnalegt að halda, að jafnvel þó að Ísland verði tekið af honum að beiðni stjórnvalda, rétt á meðan orkupakkinn sé innleiddur, þá muni það ekki þýða að Ísland lendi ekki á listanum aftur síðar. Mikill áhugi sé á orku og orkuframleiðslu og landakaupum hérlendis. Brjóta megi íslensk orkufyrirtæki eins og Landsvirkjun o.fl. upp til að rétta samkeppnisstöðu erlendra aðila. Sigmundur Davíð sagði að hlegið væri að þeim að fyrirvörum sem Noregur hafi reynt að setja við innleiðingu þriðja orkupakkans þar.
Fyrirvarar Íslands í þingsályktunartillögu, sé aðeins viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda, sem muni ekki skipta máli í framtíðinni, og tók hann kjötmálið sem dæmi, en undanþágur í kjötmálunum séu t.d. ekki að virka núna. Um ESA segir hann að fyrir liggi að stofnunin taki við drögum sem ACER semur.